Jaðaráhrif í tekjuskattkerfinu og tekjutengdur persónuafsláttur

Jaðarskattur er sá skattur sem greiddur er í tekjuskatt af síðustu krónunni sem menn afla. Jaðarskatturinn er nú 34,3% á allar launatekjur umfram skattleysismörkin sem eru 99.250 á mánuði eftir hækkun mánaðarlegs persónuafsláttar í upphafi mánaðarins í kr. 34.034. Ástæðan fyrir því að jaðarskatturinn er ekki jafn hár staðgreiðsluhlutfallinu, sem er 35,72%, er sú að 4% iðgjald í lífeyrissjóð er undanþegið tekjuskatti.

ASÍ hefur lagt fram tillögu um 20.000 kr. viðbótarpersónuafslátt á mánaðarlaun á bilinu 150.000 til 300.000. Að sögn sambandsins felur það í sér 14 milljarða tekjutap fyrir ríkissjóð. Væri hins vegar farin sú leið að hækka persónuafslátt almennt um 20.000 þá fæli það í sér 40 milljarða skattalækkun, þar sem hver 1.000 kr. hækkun persónuafsláttar er áætluð lækka tekjur ríkissjóðs um 2 milljarða króna. Til samanburðar eru tekjur ríkissjóðs af tekjuskatti einstaklinga áætlaðar um 90 milljarðar króna á þessu ári.

Tekjutengdur persónuafsláttur hefur tvo alvarlega ókosti. Annar er sá að í honum felst mikil hækkun jaðarskatta þar sem launamenn á því tekjubili þar sem hans gætti myndu ekki greiða 34,3% í skatt af síðustu 1.000 kr. sem þeir öfluðu  á mánuði heldur 48,3%. Tillagan felur því í sér hækkun jaðarskatts um 14% á umræddu tekjubili. Slík hækkun jaðarskatta hefur mikil vinnumarkaðsleg áhrif þar sem háir jaðarskattar draga úr áhuga á meiri vinnu eða ábyrgð gegn hærri tekjum og hreyfanleika á vinnumarkaði. Hinn ókosturinn er sá að í upptöku tekjutengds persónuafsláttar felst verulegt fráhvarf frá þeim meginkosti staðgreiðslukerfisins að vera nánast fullnaðaruppgjör á skattgreiðslum vegna samtímatekna, og áherslan færist yfir á eftiráuppgjör. Þar með yrðu ráðstöfunartekjur einstaklinga sveiflukenndari og ófyrirsjáanlegri og jafnframt drægi úr sveiflujöfnunareiginleikum skattkerfisins.

Smellið á myndina til að sjá stærri útgáfu

Smellið á myndina til að sjá stærri útgáfu

Jaðaráhrif tekjuskattkerfisins í heild felast í tekjuskatthlutfallinu að viðbættum tekjutengdum bótum á borð við barnabætur og vaxtabætur. Við jaðaráhrif bætast endurgreiðslur námslána, ef um þær er að ræða, sem miðast við 4,75% af útsvarsstofni.

Barnabætur eru tekjutengdar þannig að þær skerðast um 2% af tekjuskattstofni umfram 100.000 kr. á mánuði hjá einstaklingi, og tvöfalda þá upphæð hjá hjónum, sé um eitt barn að ræða, um 6% ef börnin eru tvö og um 8% ef börnin eru þrjú eða fleiri. Vaxtabætur reiknast þannig að frá stofni vaxtabóta, sem eru vaxtagjöld, dragast 6% af útsvarsstofni

Jaðaráhrif núverandi tekjuskattkerfisins, þ.e. áhrif tekjuskattshlutfalls og skerðingarhlutfalla barna- og vaxtabóta, geta því numið 48,3% (34,3%+8%+6%) ef um er að ræða fjölskyldu með þrjú börn og vaxtabætur. Sé viðkomandi með námslánaskuldir bætast 4,75% við og jaðaráhrifin verða 54%. Tillaga ASÍ felur í sér 14% viðbót við jaðaráhrif tekjuskattsins en að auki lagði sambandið til lækkun skerðingarhlutfalls úr 8% í 7% vegna þriggja barna eða fleiri. Tillagan felur því í sér hækkun á hæstu jaðaráhrifum um 13% eða í 67% sem þýðir að einstaklingar með mánaðartekjur á bilinu 150 til 300 þús. kr. á mánuði, með barnabætur vegna þriggja barna, vaxtabætur og námslánaskuldir, myndu einungis halda eftir þriðjungi þess tekjuauka sem þeir ynnu sér inn með aukinni vinnu eða hærri launum.

Smellið á myndina til að sjá stærri útgáfu

Smellið á myndina til að sjá stærri útgáfu