Ítarleg úttekt á stefnu og skipulagi Seðlabankans nauðsynleg

Í ljósi þess að peningamálastefna Seðlabankans hefur beðið skipbrot og Seðlabankinn er rúinn trausti og varð gjaldþrota er mikilvægt að allar breytingar á skipulagi hans stuðli að endurvakningu trausts á Seðlabankanum og efnahagsstefnu stjórnvalda. Samtök atvinnulífsins leggja því til að fram fari ítarleg úttekt á stefnu og skipulagi Seðlabankans og í þeirri endurskoðun verði þær breytingar sem felast í frumvarpi um Seðlabankann sem Alþingi hefur til meðferðar einnig teknar til umfjöllunar. Þetta kemur fram í umsögn SA um frumvarpið.

Þar segir ennfremur:

Stjórnarfrumvarp þetta er gagngert sett fram til þess að skipta um yfirstjórn í Seðlabankanum. Frumvarpið er lagt fram á Alþingi án þess að farið hafi fram sá vandaði undirbúningur og það samráð sem mælt er fyrir um í leiðbeiningum um undirbúning og gerð stjórnarfrumvarpa sem forsætisráðuneytið hefur gefið út. Þá er aðilum gefinn skammur umsagnarfrestur, eins og allt of algengt er, og mikill þrýstingur á hraðferð frumvarpsins í gegnum þingið.

Í frumvarpinu eru lagðar til þær breytingar á yfirstjórn Seðlabankans að bankastjórum verði fækkað úr þremur í einn og í stað bankaráðs þriggja bankastjóra komi fimm manna peningastefnunefnd sem taki ákvarðanir um framkvæmd peningamálastefnu bankans. Bankastjórinn sé skipaður af forsætisráðherra og hafi hann lokið meistaraprófi í hagfræði og búi yfir víðtækri reynslu og þekkingu á peningamálum. Peningastefnunefndin sé skipuð bankastjóranum, tveimur starfsmönnum bankans, sem væntanlega séu skipaðir af bankastjóranum, og tveimur utanaðkomandi sérfræðingum, einnig skipuðum af bankastjóranum, en að fenginni staðfestingu forsætisráðherra.

Samtök atvinnulífsins telja að eftirfarandi efnisatriði frumvarpsins þarfnist endurskoðunar.

  • 1. Formleg menntun bankastjórans. Meistarpróf í hagfræði er of þröngt skilyrði og gæti útilokað þá hæfustu frá starfinu.

  • 2. Aðrar hæfniskröfur. Bæta þyrfti kröfum um aðra eiginleika en menntun og reynslu og þekkingu í peningamálum, t.d. reynslu af fjármálamarkaði og stjórnunar- og leiðtogahæfileika eða aðra persónulega eiginleika, við þau skilyrði sem bankastjórinn þarf að uppfylla.

  • 3. Ráðning bankastjóra. Bankaráðið eða sérstök ráðningarnefnd ráði í stöðu bankastjóra í stað forsætisráðherra.

  • 4. Staðgengill bankastjóra. Bæta þarf við ákvæði um staðgengil bankastjóra eða aðstoðarbankastjóra, sem þurfi að uppfylla sömu hæfisskilyrði og bankastjórinn.

  • 5. Fulltrúar bankans í peningastefnunefnd. Eðlilegt er að tilgreina hverjir af starfsmönnum bankans sitji í peningastefnunefnd, t.d. aðalhagfræðingur.

  • 6. Utanaðkomandi fulltrúar í peningastefnunefnd. Fulltrúar í peningastefnunefnd, aðrir en starfsmenn bankans, séu skipaðir af öðrum en bankastjóranum, t.d. Alþingi.

  • 7. Kveða þarf á um hæfniskröfur fulltrúa í peningastefnunefnd.

Samtök atvinnulífsins hafa ítrekað gagnrýnt peningamálastefnu Seðlabankans og framkvæmd hennar á undanförnum árum, sbr. t.d. meðfylgjandi bréf til forsætisráðherra dagsett 4. júní 2007 og 15. ágúst 2007, og lýst áhyggjum af þeim óstöðugleika og sveiflum sem hún hefur valdið. Þessi stefna hefur nú beðið endanlegt skipbrot og miklu skiptir hvaða ákvarðanir munu verða teknar um hvað komi í stað hennar. Samtök atvinnulífsins leggja því til að fram fari úttekt á framkvæmd peningamálasstefnunnar og skipulagi Seðlabankans með það að markmiði að endurvekja traust, innanlands og utan.

Sjá nánar:

Bréf til forsætisráðherra 4. júní 2007

Bréf til forsætisráðherra 15. ágúst 2007