Íslenskir bankar og sparisjóðir verðlaunaðir

ICEPRO verðlaunin í ár komu í hlut Glitnis, Kaupþings, Landsbanka og sparisjóðanna en verðlaunin voru veitt í 11. sinn á aðalfundi ICEPRO. Verðlaunin eru veitt þeim skarað hafa fram úr á sviði rafrænna samskipta. Í máli Jóns Sigurðssonar, viðskiptaráðherra, sem veitti verðlaunin kom fram að ákveðið hefði verið að þessu sinni að verðlaunahafar yrðu fleiri en einn og væri það í fyrsta skipti sem slíkt væri gert.

Hlutu bankarnir og sparisjóðirnir verðlaunin fyrir öflug upplýsingatæknisvið, greið bankaviðskipti gegnum netið, innleiðingu auðkennislykla, framsetningu XML bankaskeyta og þátttöku í mótun rafrænna skilríkja. Guðjón Rúnarsson, framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja, tók við viðurkenningunni fyrir hönd verðlaunahafanna, svokölluðum EDI-bikar. Sjá nánar á vef ICEPRO.