Íslenski sjávarklasinn máttarstólpi íslensks efnahagslífs

Íslenski sjávarklasinn er máttarstólpi íslensks efnahagslífs og hann getur verið ein helsta uppistaða velmegunar og nýrra og fjölbreyttra tækifæra fyrir komandi kynslóðir Íslendinga. Með því að varpa nýju ljósi á þennan mikilvæga klasa, sýna hversu fjölbreyttur hann er og hve mörg ný tækifæri liggja í nýsköpun, rannsóknum og margháttaðri starfsemi tengdri íslenska sjávarklasanum, þá er lagður grunnur að auknum áhuga og stefnumótun á þessu sviði sem nýst getur við uppbyggingu Íslands.

Þetta kom m.a. fram á kynningu á sjávarklasanum þann 24. maí en um er að ræða samstarfsverkefni margra fyrirtækja í haftengdri starfsemi sem  hefur það að markmiði að bæta samstarf, auka verðmæti og efla skilning á mikilvægi þeirrar starfssemi sem undir sjávarklasann falla.

Fyrirhugað er að kynna skýrslu um umfang og áhrif alls íslenska sjávarklasans í upphafi næsta vetrar og á Sjávarútvegsráðstefnunni í september. Þá verða kynntar tillögur um hvernig megi efla samstarf innan klasans til að styrkja nýja sprota í geiranum og auka gróskuna í þessum stærsta klasa í íslensku atvinnulífi.

Á síðustu 12 mánuðum hafa umtalsverðar rannsóknir farið fram en verkefnið er vistað hjá Viðskiptafræðistofnun Háskóla Íslands. Rannsóknirnar staðfesta mikilvægi fyrirtækja sem byggja á haftengdri starfsemi og sýna fram á mikinn ávinning sem aukið samstarf og uppbygging á þessu sviði getur skilað íslensku samfélagi til framtíðar.

Myndin hér að neðan sýnir sjávarklasann á Íslandi og ólíkar greinar hans. Verkefnið er að kortleggja alla þá starfsemi sem snýr að hafinu í kringum Ísland allt frá hefðbundnum fiskveiðum og fiskvinnslu, rannsóknum og  nýsköpun, til líftækni og hátækniframleiðslu, flutningastarfsemi, fjármálastarfsemi og viðgerðar- og viðhaldsþjónustu.

Íslenski sjávarklasinn - smelltu til að stækka.

Þá verður sérstaklega horft til erlendrar starfsemi sem tengist íslenska sjávarklasanum.  Hér er átt við margháttaðan rekstur klasans erlendis sem samanstendur af rekstri hátæknifyrirtækja, fiskréttaverksmiðja, markaðsfyrirtækja, fiskeldis, sérhæfðra fjármála- og flutningafyrirtækja, útgerða o.fl. Í þessari starfsemi kunnaað liggja fjölmörg tækifæri fyrir íslenska sjávarklasann.

Helstu niðurstöður verkefnisins til þessa eru eftirfarandi:

  • Nú þegar liggja fyrir upplýsingar um ríflega 700 fyrirtæki sem starfa í sjávarklasanum á Íslandi. Samkvæmt þeim athugunum sem þegar liggja fyrir eru starfsmenn í klasanum ríflega 12 þúsund talsins og gera má ráð fyrir að óbein störf sem tengjast klasanum séu um 18 þúsund.

  • Veigamesti partur sjávarklasans er sjávarútvegur (fiskveiðar og fiskvinnsla). Fengnar hafa verið upplýsingar um innlend aðfangakaup nokkurra sjávarútvegsfyrirtækja sem samanlagt eru með tæp 20% aflahlutdeildar. Aldrei áður hefur verið gerð jafn ítarleg athugun á aðfangakaupum sjávarútvegsfyrirtækja og áhrifum á umfangi þeirra á ólíkar atvinnugreinar í landinu. Samkvæmt þeim rannsóknum, sem gerðar hafa verið, má rekja tæplega 19% landsframleiðslunnar til umsvifa íslensks sjávarútvegs eða sem nemur rösklega 290 milljörðum króna. Ýmis iðnaður eins og málmsmíði eiga mest undir viðskiptum við sjávarútvegsfyrirtæki eða sem nemur tæplega 51%. Umboðsverslun á 27% sinnar veltu undir sjávarútvegi, orkufyrirtæki um 15%, samgöngu- og flutningastarfsemi 5-10%.

  • Efla má samstarf innann hefðbundinna greina sjávarklasans en ekki síður milli nýrra og eldri greina. Árangur af slíku samstarfi má m.a. sjá í samstarfi tæknifyrirtækja og sjávarútvegsfyrirtækja þar sem það samstarf hefur skilað sér í öflugum tæknifyrirtækjum um allt land. Öll tæknifyrirtæki í sjávarklasanum hafa verið skráð og haft samband við nær öll þeirra.

    Um 70 fyrirtæki eru starfrækt á landinu sem stunda útflutning á eigin vörumerki í búnaði fyrir sjávarútveg, fiskeldi eða fiskvinnslu. Velta þessara fyrirtækja nam 26 milljörðum árið 2010 og starfsmenn þeirra eru um 1000 talsins, mestmegnis tæknimenntað fólk. Flest þessara fyrirtækja eru afrakstur náins samstarfs  sjávarútvegs og tæknifyrirtækja. Í framhaldi af þessari vinnu er í undirbúningi að stofna sérstök samtök tæknifyrirtækja í sjávarklasanum  sem hafi að markmiði að efla þessi fyrirtæki og markaðsstöðu þeirra.

Fjallað er nánar um sjávarklasann í Markaði Fréttablaðsins í dag

Kynningu á sjávarklasanum frá 24. maí má nálgast hér að neðan:

Fréttatilkynning um sjávarklasann (PDF)

 Kynningarglærur stjórnenda í sjávarklasanum (PPT)