Íslensk laun - hvergi hærra hlutfall verðmætasköpunar

Ein leið til að skoða hag atvinnurekstrar í landinu er að líta á hvernig virðisaukinn sem til verður við atvinnu-starfsemina skiptist milli launþega og rekstrarhagnaðar. Samkvæmt nýjustu gögnum stefnir hlutfall launa af verðmætasköpuninni í 70% og nálgast þannig sögulegt hámark. Árið 2001 féll launahlutfallið niður í 68,0%, en hefur fikrast upp síðan og var 69,3% árið 2002. Í sögulegu samhengi verður að telja hlutfallið hátt en það var 65% að meðaltali síðustu 10 ár og 64,5% að meðaltali á tímabilinu 1973-2002. Hækkun hlutfallsins má að miklu leyti rekja til áranna 1998 og 1999 en hlutfallið hækkaði úr 62% í 69% á þessum árum. Hugtakið verðmætasköpun er hér notað yfir vergar þáttatekjur, sem er hugtak í þjóðhagsreikningum og er skilgreint sem landsframleiðsla að frádregnum óbeinum sköttum.

Launahlutfallið er mun hærra á Íslandi en hjá öðrum Evrópuþjóðum. Í Evrópusambandinu í heild (ESB-15) var hlutfallið 57,4% á síðasta ári og hefur það verið tiltölulega stöðugt en er þó nokkuð lægra nú en í upphafi síðasta áratugar. Meðaltal síðustu 10 ára er 57,0% í ESB. 

(smellið á myndina)


Ef launahlutfallið á Íslandi væri það sama og í ESB, þ.e. 57% í stað 69% þá yrði 90 milljörðum króna meiri afgangur hjá fyrirtækjunum ár hvert. Þessi upphæð nemur meira en hálfri milljón króna á hvern vinnandi mann. 

Það ríki sem kemur Íslandi næst hvað hátt launahlutfall varðar er Svíþjóð, en þar var launahlutfallið 65,4% af verðmætasköpuninni árið 2002. Síðastliðinn áratug hefur hlutfallið verið 63,3% þar í landi að meðaltali, þannig að það hefur farið hækkandi undanfarin ár líkt og hér á landi. Næst á eftir Svíþjóð kemur Danmörk en þar var hlutur launamanna 63,6% af verðmætasköpununni árið 2002 og hefur það verið nokkuð stöðugt undanfarin ár, en meðaltalið þar í landi síðastliðinn áratug er 62,6%. Launahlutföllin í Noregi og Finnlandi eru hins vegar mun lægri eða undir 60%.

(smellið á myndina)


 

Meginskýringin ekki í mikilli launahækkun hjá hinu opinbera
Þessi mikla hækkun launahlutfallsins hér á landi er mikið umhugsunarefni. Menn hljóta að velta því alvarlega fyrir sér hvort svo hátt hlutfall fái staðist til lengdar, hvort það muni ekki bitna á fjárfestingum og draga úr hagvexti í framtíðinni. Hvernig má það vera að hlutfallið hækki svona mikið á svo skömmum tíma og staðnæmist þar? Geta Íslendingar greitt mun hærra hlutfall af verðmætasköpuninni í laun en aðrar þjóðir?  Hvað er það í grunngerð íslensks efnahagslífs sem gæti valdið því? 

Því hefur verið kastað fram að skýringa á hækkun hlutfallsins árin 1998 og 1999 sé að leita í miklum launahækkunum hjá hinu opinbera í kjölfar upptöku nýs launakerfis á þeim tíma. Hægt er að ganga úr skugga um hvort þetta sé rétt með því að skoða gögn Hagstofunnar. Þegar launum og launatengdum gjöldum er skipt upp á milli einka- og opinbera geirans kemur í ljós að meginskýringin á hækkun hlutfallsins á þessum árum liggur ekki í launahækkunum hjá hinu opinbera, enda er opinberi vinnumarkaðurinn mun fámennari en sá almenni og stendur aðeins fyrir rúmum fjórðungi launagreiðslna í heild en tæpir þrír fjórðu launagreiðslna eiga uppruna sinn í einkageiranum.

Launahlutfallið í heild hækkaði úr 62,2% á árinu 1997 í 68,9% árið 1999 eða um 6,7%. Á sama tíma hækkaði launahlutfall opinberra starfsmanna úr 16,2% í 17,7% eða um 1,5% samanborið við hækkun launahlutfalls á einkamarkaði úr 46,0% í 51,2% eða um 5,2%. Hækkun hlutfallsins á þessum árum má því að stærstum hluta rekja til einkageirans. Það er hins vegar athyglisvert að á árinu 2002 hækkaði launahlutfall opinbera geirans um 1,5% frá fyrra ári á sama tíma og hlutfallið lækkaði lítillega í einkageiranum. Laun og launatengd gjöld hjá hinu opinbera sem hlutfall af verðmætasköpuninni komst þannig í sögulegt hámark á árinu 2002 og var mun hærra en á árinu 2000 en á móti var launahlutfallið í einkageiranum nokkuð lægra en árið 2000.

(smellið á myndina)


 

Aukning kaupmáttar umfram framleiðniaukningu
Eftir stendur þá að finna skýringu á því hvað olli hinni miklu hækkun sem varð á launahlutfallinu á árunum 1998 og 1999. Þegar gögnin eru skoðuð kemur í ljós að skýringuna er að finna í því að kaupmáttur launa jókst umtalsvert án þess að á bak við það stæði framleiðniaukning. Hagvöxtur þessi ár var að vísu mikill, 5,6% árið 1998 og 4,1% árið 1999, en hann átti að mestu rætur sínar í aukinni vinnuaflsnotkun. Þannig fjölgaði starfandi fólki samkvæmt vinnumarkaðskönnun Hagstofunnar um 4% bæði árin 1998 og 1999 samanborið við rúmlega 1% aukningu að jafnaði á áratugnum öllum. Framleiðniaukning vinnuaflsins var því lítil, eða samtals innan við 2% þegar bæði árin eru tekin saman, og var því kaupmáttaraukningin, sem var um 9% samtals bæði árin skv. launavísitölu, sótt í minnkandi hlutdeild hagnaðar í atvinnulífinu.

Því hefur einnig verið haldið fram að það sé eðlilegt að hlutur launanna hafi hækkað í ljósi þess að fjölgun starfa sé einkum í þjónustu- og tæknigreinum sem eru vinnuaflsfrekar fremur en í fjármagnsfrekum framleiðslugreinum. Þetta gæti verið þróunin til lengri tíma litið en hennar sér þó ekki merki í þeim gögnum sem hér hafa verði sýnd um þróunina innan Evrópusambandsins. Raunar leitar launahlutfallið frekar niður á við í ESB í heild og í Danmörku einnig en þróunin í átt til aukins vægis þjónustugreina hefur verið sambærileg í Evrópu og hér á landi.

Ástæður að finna í þenslu árin 1998 og 1999
Niðurstaðan er því sú að þenslan í atvinnulífinu árin 1998 og 1999 leiddi til mikillar vinnuaflseftirspurnar, launahækkana og kaupmáttarauka en framleiðniþróun vinnuafls var á sama tíma slök þannig að launafólk fékk stórbætt kjör á kostnað afkomu atvinnulífsins. Þróun þessara ára leiddi til þess að launahlutfallið á Íslandi komst í sögulegt hámark, sem sker sig úr í alþjóðlegum samanburði, og það hefur haldist þannig síðan.