Íslensk fyrirtæki með í mótun Evrópulöggjafar

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins er um þessar mundir að taka upp rafrænt umsagnarkerfi þar sem fyrirtæki tjá sig um mótun nýrrar Evrópulöggjafar, sem haft geta áhrif á starfsskilyrði fyrirtækja á innri markaðnum. EFTA-aðildarríkjum Evrópska efnahags-svæðisins stendur til boða að taka þátt í verkefninu og hafa Samtök atvinnulífsins, í samvinnu við aðildarfélög, haft milligöngu um framkvæmd verkefnisins gagnvart íslenskum fyrirtækjum. Nú þegar hefur fjöldi aðildarfyrirtækja SA skráð þátttöku, en áhugasöm fyrirtæki eru hvött til að setja sig í samband við samtökin.

Aðkoma að mótun löggjafar á frumstigi
Með þátttöku fá íslensk fyrirtæki tækifæri til að tjá sig á frumstigi um Evrópulöggjöf sem getur haft veruleg áhrif á rekstrarumhverfi þeirra eftir að hún er tekin upp í íslenska löggjöf í gegnun EES-samninginn. Þá geta einstök fyrirtæki séð hvernig þeirra svör koma út í samanburði við heildarsvörun við umræddum spurningum.

Ætlað að efla samkeppnishæfni evrópsks atvinnulífs
Framkvæmdastjórn ESB sendir fyrirtækjum stutta lýsingu á hugmyndum að löggjöf sem haft getur veruleg áhrif á starfsumhverfi fyrirtækja á innri markaðinum. Jafnframt fá fyrirtækin spurningalista með krossaspurningum þar sem hugur þeirra gagnvart slíkri löggjöf er kannaður. Fullum trúnaði er heitið hvað varðar svör einstakra fyrirtækja og er frumgögnum eytt að úrvinnslu lokinni. Niðurstöðurnar eru síðan hafðar til hliðsjónar við mótun löggjafar. Markmiðið er að stjórnendur fyrirtækja taki þátt í undirbúningi ESB löggjafar með það fyrir augum að hún nýtist fyrirtækjum sem best og nái tilgangi sínum með lágmarkskostnaði fyrir atvinnulífið. Hugmyndin er að gæði löggjafarinnar verði meiri og komið verði í veg fyrir óþarfa skrifræði og óhóflega íþyngjandi löggjöf sem skaðar samkeppnishæfni atvinnulífs í Evrópu.

Hvað þurfa fyrirtækin sem taka þátt að gera?
Um það bil þrisvar til fjórum sinnum á ári fá fyrirtækin texta (eina blaðsíðu á ensku) í tölvupósti um löggjöf sem er í undirbúningi hjá ESB og tengil á vefsíðu þar sem þau eru beðin að svara 10-20 krossaspurningum sem tengjast löggjöfinni. Ennfremur verður hægt að senda athugasemdir í frjálsum texta. Upplýsingarnar og spurningarnar eiga að verða þannig úr garði gerðar að ekki taki mikinn tíma að bregðast við.

Áhugasamir hafi samband við SA
Sem fyrr segir hefur fjöldi fyrirtækja nú þegar skráð sig, en fyrirtækjum sem áhuga hafa á þátttöku er bent á að hafa samband við Gústaf Adolf Skúlason hjá Samtökum atvinnulífsins.