Íslensk fyrirtæki hafa ávallt lagt ýmislegt til samfélagsins

Viðtal við Gústaf Adolf Skúlason, forstöðumann stefnumótunar- og samskiptasviðs Samtaka atvinnulífsins, í ritinu Samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja sem gefið var út í tengslum við ráðstefnuna "Þitt tækifæri - allra hagur." Ráðstefnan fór fram á Hótel Nordica 15. nóvember á vegum Háskólans í Reykjavík í samstarfi við KOM almannatengsl.

Umræðan um samfélagslega ábyrgð hér á landi hefur farið vaxandi að undanförnu. Mörg fyrirtæki vinna nú að því að marka sér sérstaka stefnu á þessu sviði. Gústaf Adolf Skúlason er forstöðumaður stefnumótunar- og samskiptasviðs Samtaka atvinnulífsins. Hann segir að SA leggi áherslu á að hlutverk fyrirtækja sé í grundvallaratriðum að skila arði, skapa störf og greiða skatta og skyldur til samfélagsins, allt í samræmi við lög og reglur hverju sinni.

"Þetta er aðalatriðið," segir Gústaf Adolf "en hins vegar hafa íslensk fyrirtæki, eins og auðvitað fyrirtæki víðast annars staðar, ávallt lagt ýmislegt til samfélagsins umfram þetta. Stundum í tengslum við markaðsstarfsemi sína en oft án þess að nokkur tengsl hafi verið þar á milli." Hann bætir við, að allir þekki ótal dæmi um myndarlegan stuðning fyrirtækja við menningar- og líknarmál, íþróttafélög o.fl. Í mörgum smærri bæjarfélögum gegni tiltekin lykilfyrirtæki ótal hlutverkum og séu beinir eða óbeinir aðilar að ýmsu félagsstarfi og samfélagslegum verkefnum.

Gústaf nefnir sem dæmi, að í mörgum bæjum á landsbyggðinni hafi lykilfyrirtæki á svæðinu gert sveitarstjórnum kleift að setja á fót aðstöðu fyrir fólk til að stunda fjarnám á framhaldsskóla- eða háskólastigi og stuðlað að símenntun fyrir ófaglærða. "Íslensk fyrirtæki með starfsemi í þróunarlöndum bjóða líka iðulega upp á mun betri vinnuaðstæður og kjör en lög og kjarasamningar kalla á í viðkomandi landi. Það sama gildir auðvitað um fyrirtæki frá flestum öðrum þróaðri ríkjum. Þetta getur verið ómetanlegt hverju sinni en er ábyrgð sem fyrirtækin kjósa sjálf að axla, oft á kostnað minni arðsemi og þar með lægri skattgreiðslna í sameiginlega sjóði."

 

Skilgreining ESB og fleiri

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur skilgreint félagslega ábyrgð fyrirtækja sem þær skuldbindingar sem fyrirtækið kýs að taka á sig gagnvart starfsfólki, umhverfi og viðskiptavinum umfram það sem kveðið er á um í kjarasamningum, lögum eða reglugerðum. Samráðsvettvangur, m.a. með þátttöku UNICE - Evrópusamtaka atvinnulífsins sem SA eru aðilar að - hefur skilað lokaskýrslu um málið. Þar er grunnskilgreining á samfélagslegri ábyrgð í aðalatriðum sú sama og hjá framkvæmdastjórn ESB, en tekið er fram að skuldbindingar sem fyrirtæki kjósi að taka á sig komi ekki í stað þess sem kveðið er á um í kjarasamningum, lögum eða reglugerðum. "Þarna náðist ágæt niðurstaða á Evrópuvettvangi og raunar hafa UNICE o.fl. evrópsk samtök atvinnurekenda og ýmis fyrirtæki haldið áfram ágætu samstarfi við framkvæmdastjórn ESB um þessa CSR umræðu," segir Gústaf.

Kapítalisminn þjónar hagsmunum almennings

Gústaf ítrekar hins vegar að fyrirtækin skili samfélaginu mestu með því að rækja áðurnefnd grundvallarhlutverk. "Tímaritið Economist hefur séð ástæðu til að minna á í þessu sambandi, að hið kapítalíska kerfi þjónar fyrst og fremst hagsmunum almennings. Það er ekkert athugavert við að fyrirtæki einbeiti sér að því að mæta eftirspurn eftir vörum og þjónustu, virði lög og reglur, skapi störf, skili arði og greiði skatta í sameiginlega sjóði samfélagsins. Ef það hins vegar kýs að styðja t.d. með beinum hætti við nánasta umhverfi sitt á sviði líknarmála, íþrótta eða menningarmála, þá er það bara ávinningur fyrir samfélagið. Reynslan kennir okkur að langflest fyrirtæki kjósa einmitt að leggja aukalega til samfélagsins með einhverjum hætti."