Íslendingar mjög jákvæðir í garð lítilla fyrirtækja

Ný skoðanakönnun Capacent leiðir í ljós að 94,4 % Íslendinga eru jákvæðir í garð lítilla fyrirtækja, 5,3% hafa á þeim enga skoðun og aðeins 0,3% eru neikvæðir. Þetta eru góðar fréttir fyrir íslenskt atvinnulíf. Rúmlega helmingjur þjóðarinnar telur hins vegar að starfsumhverfi lítilla fyrirtækja sé slæmt og aðeins einn af hverjum fimm telur að það sé gott.

Könnun Capacent var gerð í tilefni Smáþings sem fram fer fimmtudaginn 10. október þar sem málefni lítilla og meðalstórra fyrirtækja verða í kastljósinu. Til að kanna viðhorf fólks til lítilla fyrirtækja spurði Capacent Íslendinga eftirfarandi spurningar:

Almennt séð, ertu jákvæð(ur) eða neikvæð(ur) gagnvart litlum íslenskum fyrirtækjum?

27,8% söguðust að öllu leyti jákvæð, 41,1% mjög jákvæð, 25,6 % voru frekar jákvæð, 5,2% sögðust hvorki jákvæð né neikvæð en 0,3% sögðust neikvæð.

Small1

Í könnun Capacent var einnig spurt um viðhorf fólks til rekstrarumhverfis lítilla fyrirtækja og af svörunum er ljóst að það þarf að bæta, 51,9% telja rekstrarumhverfið slæmt, aðeins 20,2% gott. Spurt var:

Telur þú rekstrarumhverfi lítilla íslenskra fyrirtækja sé almennt gott eða slæmt?

1% telja það að öllu leyti gott, 2,2% mjög gott, 17% frekar gott, 27,9% hvorki gott né slæmt, 41,4% frekar slæmt, 9,7% mjög slæmt og 0,8% telja það að öllu leyti slæmt.

Lítil fyrirtæki eru mikilvæg uppspretta nýrra starfa en samkvæmt nýrri úttekt Hagstofu Íslands sem gerð var fyrir SA störfuðu rúmlega 72 þúsund manns hjá litlum fyrirtækjum (með færri en 50 starfsmenn) árið 2012 og þau greiddu um 44% heildarlauna í atvinnulífinu það ár eða 244 milljarða króna.

Um könnunina:

Könnun Capacent var unnin fyrir Samtök atvinnulífsins, dagana 19.-30. september 2013. Um var að ræða netkönnun. Í úrtaki voru 1450 manns á landinu öllu, 18 ára og eldri, handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Capacent Gallup. Fjöldi svarenda var 844 og svarhlutfall því 58,2%

Tengt efni:

Smáþing 10. október 2013

Lítil og meðalstór fyrirtæki greiddu 2/3 heildarlauna í atvinnulífinu 2012