Íslendingar hafi óskoruð yfirráð yfir eigin orkulindum

"Það er mikilvægt fyrir þann samningaferil, sem er að fara í gang á sviði loftslagsmála á vegum Sameinuðu þjóðanna, að íslensk stjórnvöld fari af stað með skýrar hugmyndir um hvert skuli stefna. Það er mjög mikilvægt að menn haldi til haga árangri Íslands í loftslagsmálum sem íslensk stjórnvöld fengu viðurkenndan í samningaferlinu að Kyoto-samkomulaginu 1995-97 varðandi nýtingu endurnýjanlegrar orku og hið svokallaða íslenska ákvæði."  Þetta segir Pétur Reimarsson, forstöðumaður hjá SA, í samtali við Morgunblaðið í dag. Ennfremur segir Pétur að viðræðurnar um loftslagssamninginn snúist ekki um náttúruvernd eða einstakar virkjanir hér á landi heldur fyrst og fremst um að halda óskoruðum yfirráðum yfir orkulindum Íslands.

Pétur segist telja að hið svokallaða íslenska ákvæði geti ekki einungis verið hugsað til fimm ára, þ.e. fyrir tímabilið frá 2008 til 2012, heldur hljóti eitthvað sambærilegt að gilda í framhaldinu. Í dag sé í reynd alþjóðlegur pottur útstreymisheimilda sem ríki geti sótt í ef einhver tiltekin verkefni uppfylla skilyrði sem sett eru. Mjög mikilvægt sé að árangur sá sem Íslendingar hafa náð verði viðurkenndur áfram, vegna þess að það tryggi að menn geti haldið áfram að nýta hér endurnýjanlegar orkulindir eins og það samræmist umhverfis- og efnahagslífinu að öðru leyti, án þess að reka sig upp undir eitthvert þak. Þetta verði kleift á svipaðan hátt og önnur ríki geta flutt út sínar orkuauðlindir í formi olíu, kola eða gass. "Við höfum engan annan möguleika en breyta okkar orkulindum í einhverjar afurðir sem fluttar eru út," segir hann í Morgunblaðinu.

"Viðræðurnar um loftslagssamninginn snúast ekki um náttúruvernd eða einstakar virkjanir hér á landi heldur er þarna fyrst og fremst um að ræða hagsmunagæslu til að halda óskoruðum yfirráðum yfir orkulindunum."

Sjá nánar í Morgunblaðinu 13. febrúar 2008