Efnahagsmál - 

19. maí 2011

Íslendingar fari atvinnuleiðina út úr kreppunni

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Íslendingar fari atvinnuleiðina út úr kreppunni

Kjarasamningarnir frá 5. maí sl. hafa nú verið samþykktir í allsherjar atkvæðagreiðslu Samtaka atvinnulífsins en almennur frestur til afgreiðslu þeirra er til 25. maí. Samningarnir eru kostnaðarsamir fyrir atvinnulífið og byggja alfarið á því að atvinnuleiðin út úr kreppunni verði farin. Samningarnir eru þannig upp byggðir að fyrir 22. júní þarf að ákveða hvort þeir gildi til janúarloka 2014. Ef annað hvort ASÍ eða SA ákveða að framlengja ekki samningana til 2014 þá gilda þeir til 31. janúar 2012. Í báðum tilvikum taka launahækkanir gildi þann 1. júní nk. en umsamdar hækkanir á árunum 2012 og 2013 koma þá ekki til framkvæmda.

Kjarasamningarnir frá 5. maí sl. hafa nú verið samþykktir í allsherjar atkvæðagreiðslu Samtaka atvinnulífsins en almennur frestur til afgreiðslu þeirra er til 25. maí. Samningarnir eru kostnaðarsamir fyrir atvinnulífið og byggja alfarið á því að atvinnuleiðin út úr kreppunni verði farin. Samningarnir eru þannig upp byggðir að fyrir 22. júní þarf að ákveða hvort þeir gildi til janúarloka 2014. Ef annað hvort ASÍ eða SA ákveða að framlengja ekki samningana til 2014 þá gilda þeir til 31. janúar 2012. Í báðum tilvikum taka launahækkanir gildi þann 1. júní nk. en umsamdar hækkanir á árunum 2012 og 2013 koma þá ekki til framkvæmda.

Við gerð kjarasamninganna var gengið út frá því að allt sem þarf að uppfylla fram til 22. júní hefði framgang eins og til var stofnað. Þar er fyrst og fremst vísað til yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar og bókunar í tengslum við kjarasamningana og efnda þeirra fyrirheita sem gefin voru. Sá möguleiki að kjarasamningarnir tækju ekki gildi er fyrst og fremst hugsaður sem öryggisventill sem fyrirfram er ekki reiknað með að þurfi að nýta.

Samtök atvinnulífsins hafa verið í nokkrum samskiptum við stjórnvöld vegna framhalds málsins. Ýmsar lagabreytingar hafa verið kynntar og málin ágreiningslaus eða ágreiningslítil utan þau frumvörp sem kynnt hafa verið vegna breytinga á lögum um stjórn fiskveiða. Um þau frumvörp er mikill ágreiningur en ríkisstjórnin hefur engu að síður boðað sátt um þau mál á þeim grundvelli að rekstrarskilyrði í sjávarútvegi verði góð.

Ágreiningurinn um sjávarútvegsfrumvörpin snýst einmitt um það að í engu atriði bæta þau rekstrarskilyrði í sjávarútvegi en veikja þau í flestum atriðum og í nokkrum atriðum beinlínis vega þau að sjálfum grundvelli hagkvæms rekstrar í atvinnugreininni s.s. með takmörkunum á framsali aflahlutdeilda og veðsetningum. Auk þess eru áform um að stórauka veiðar á pólitískum forsendum meðan staða þeirra sem byggja starfsemi sína á almennum rekstrarlegum forsendum í atvinnugreininni er alvarlega rýrð. Nú er að störfum sérstakur hópur hagfræðinga sem hefur það hlutverk að meta áhrif þeirra breytinga sem frumvörpin boða á sjávarútveginn og tengda starfsemi og á að skila niðurstöðu eftir tvær vikur. Að fenginni þeirri niðurstöðu verður leitað sátta um framhaldið.

Auknar fjárfestingar í atvinnulífinu og samgönguframkvæmdum verða ráðandi fyrir það hvernig til tekst með atvinnuleiðina og kjarasamningana. Nú fer að draga til tíðinda með framgang álversins í Helguvík þar sem gerðardómur mun innan nokkurra vikna kveða upp úrskurð í deilumálum um orkuviðskipti milli HS orku og Norðuráls nema samið verði um niðurstöðu áður en dómur fellur. Lífeyrissjóðir hafa hafið vinnu með Orkuveitu Reykjavíkur og Norðuráli vegna framgangs Hverahlíðarvirkjunar. Meiri líkur en minni eru því á að framkvæmdir við álverið í Helguvík komist á skrið og að fullum framkvæmdahraða verði náð á næsta ári. Ekki er annað vitað en að framkvæmdir við kísilver í Helguvík sér á áætlun. 

Aðrar stórframkvæmir í atvinnulífinu t.d. á Norður- og Austurlandi eru í meiri óvissu. Landsvirkjun hefur verið í viðræðum við ýmsa aðila vegna uppbyggingar í Þingeyjarsýslum en niðurstaða liggur ekki fyrir. Þó hafa mjög ákveðin skilaboð verið gefin um að þar færi eitthvað að gerast en stórar fjárfestingar á þessu svæði hafa afgerandi áhrif á atvinnu og hagvöxt.

Ekki er enn farið að skýrast hvort eitthvað verður af þeim stóru samgönguframkvæmdum sem hafa verið undirbúnar og beðið framgangs allt frá árinu 2009. Engar beinar viðræður um mögulegar útfærslur á fjármögnun þeirra hafa farið af stað en Samtök atvinnulífsins hafa lagt fram hugmyndir um þau mál.  Í yfirlýsingur ríkisstjórnarinnar er sérstaklega vikið að því að reynt verði til þrautar að finna lausnir þannig að af þessum samgönguframkvæmdum geti orðið.

Almenn fjárfestingarskilyrði þurfa líka að vera í góðu lagi og þar þarf margt að bæta þannig að fjárfestingar í atvinnulífinu aukist eins og þarf. Ennþá er engin ný hreyfing til afnáms gjaldeyrishaftanna en boðaðar strangari reglur um kaup og ráðstöfun einstaklinga á gjaldeyri. Allt er þetta í góðu samræmi við haftafræðina og ekki von á öðru meðan æðstu menn Seðlabankans eru uppteknir við að taka ákvarðanir um hvort stærstu útflutningsfyrirtæki landsins mega taka fé útaf gjaldeyrisreikningum til þess að greiða ferðakostnað vegna starfsemi erlendis. Gjaldeyrishöftin eru afar skaðleg, ótrúleg mistök voru gerð með innleiðingu haftanna og enn ótrúlegara en það metnaðarleysi sem birtist í áframhaldandi tilvist þeirra.

Uppstokkun á efnahagsreikningum og skuldum fyrirtækja hefur gengið of hægt, hverju sem um er að kenna. Ákvarðanatöku og vinnu vegna þeirra mála þarf að hraða þannig að fyrirtæki geti almennt verið komin með sín mál á hreint á þessu ári. Fjármálamarkaðurinn verður að vera vel virkur þannig að hann styðji við fjárfestingar í atvinnulífinu. Það felur í sér að fjármagnskostnaður þarf að vera raunhæfur og því er hagkvæmni í rekstri fjármálafyrirtækja og opinn fjármagnsmarkaður lykilatriði auk skynsamlegra vaxtaákvarðana Seðlabankans.

Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er fjallað um skattamál fyrirtækja en nauðsynlegt er að breyta til baka ýmsu því sem ákveðið var í árslok 2009. Þessi vinna er hefur verið í sínum farvegi og ekki ástæða til annars en að ætla að þar fáist ásættanleg niðurstaða. Skattaumhverfi fyrirtækja hefur mikla þýðingu fyrir fjárfestingar og er eitt af því sem þarf að komast til þess að bæta almenn skilyrði til fjárfestinga í öllum greinum atvinnulífsins.

Í kjarasamningunum 5. maí er yfirlýsing samningsaðila um lífeyrismál þar sem fram kemur ásetningur um að hækka framlög til lífeyrissjóða á almennum markaði úr 12% í 15,5% í því skyni að lífeyrisréttindi á vinnumarkaðnum verði samræmd og á sjálfbærum grunni. Nú hefur Fjármálaeftirlitið gert þá kröfu að Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins hækki iðgjald launagreiðanda úr 15,5% í 19,5% sem setur áform um almenna samræmingu lífeyrisréttinda á vinnumarkði við 15,5% iðgjald í mikið uppnám. Samræming lífeyrisréttinda á vinnumarkaðnum verður greinilega erfiðara verkefni en vænst hefur verið.

Hagsmunir allra Íslendinga eru miklir af því að fara atvinnuleiðina út úr kreppunni. Margt þarf að ganga upp til þess að þetta gerist. Kjarasamningarnir sem slíkir með fyrirsjáanleika á vinnumarkaði fram á árið 2014 eru mikilvægt framlag til atvinnuleiðarinnar og vegferðarinnar út úr kreppunni. Kjarasamningarnir setja vissulega byrðar á atvinnulífið en atvinnuleiðin er fær og í raun eina skynsamlega leiðin fyrir land og þjóð. Því hljóta allir sem ábyrgð hafa að þurfa að leggja sig fram um að tryggja að atvinnuleiðin verði farin.

Vilhjálmur Egilsson

Af vettvangi í maí 2011

Samtök atvinnulífsins