Íslandsstofa stofnuð

Stofnfundur Íslandsstofu var haldinn þriðjudaginn 29. júní. Með tilkomu hennar verður öll kynning á viðskiptalegum hagsmunum Íslands komin undir einn hatt, en í lögum um Íslandsstofu segir að markmið þeirra sé að efla ímynd og orðspor Íslands, styrkja samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs á erlendum mörkuðum og laða erlenda ferðamenn og fjárfestingu til landsins. Vilmundur Jósefsson, formaður SA, sagði í ávarpi að stofnun Íslandsstofu væri sérstakt gleðiefni. Með samstarfi atvinnulífs, utanríkisþjónustunnar, fyrirtækja og stjórnvalda hafi verið skapaður grunnur til að standa vel að þessu mikla og mikilvæga verkefni.

Vilmundur sagði að ekki mætti gleyma því að Íslandsstofa komi til með að byggja á löngu og farsælu starfi Útflutningsráðs Íslands og þar áður Útflutningsmiðstöðvar iðnaðarins. Útflutningsmiðstöðin var stofnuð af Félagi íslenska iðnrekenda árið 1971 eftir inngöngu Íslands í EFTA og saga þessarar starfsemi spannar því nær fjóra áratugi. Fjármögnunin hefur  á undanförnum árum verið með sérstöku gjaldi sem samið hefur verið um við atvinnulífið og er reiknað af tryggingagjaldsstofni.

Almennt hefur ríkt mikil ánægja með störf Útflutningsráðs, ráðgjafastarfið, hagvaxtar- og fræðsluverkefni þess. Þakkaði Vilmundur sérstaklega stjórn Útflutningsráðs, framkvæmdastjóra þess og starfsmönnum öllum frábærlega vel unnin störf. Einnig þakkaði formaður Samtaka atvinnulífsins samstarf við utanríkisráðherra, utanríkismálanefnd Alþingis og aðra þá sem komu að undirbúningi hinnar nýju Íslandsstofu.

Ávarp Vilmundar á stofnfundi Íslandsstofu 29. júní má lesa í heild hér að neðan:

Stofnun Íslandsstofu er sérstakt gleðiefni. Með henni hefur atvinnulífið tekið höndum saman við stjórnvöld um öflugan stuðning við útflutningsstarfsemi og ferðaþjónustu.

Samstarfið byggir á þeirri staðreynd að utanríkisviðskipti og gjaldeyrisöflun ýta undir hagvöxt og velmegun. Með því hafa stjórnvöld viðurkennt að í atvinnulífinu liggur þekkingin á vörunni og þjónustunni sem í boði er auk þekkingar á markaðssetningu og erlendum mörkuðum. Það eru einnig almannahagsmunir að vel sé staðið að kynningu á íslenskri vöru og þjónustu og að vel sé að því staðið að standa vörð um orðspor Íslands erlendis. Með samstarfi atvinnulífs, utanríkisþjónustunnar, fyrirtækja og stjórnvalda hefur með stofnun Íslandsstofu verið skapaður grunnur til að standa vel að þessu mikla og mikilvæga verkefni.

Því má samt ekki gleyma að Íslandsstofa kemur til með að byggja á löngu og farsælu starfi Útflutningsráðs Íslands og þar áður Útflutningsmiðstöðvar iðnaðarins. Útflutningsmiðstöðin var stofnuð af Félagi íslenska iðnrekenda árið 1971 eftir inngöngu Íslands í EFTA og saga þessarar starfsemi spannar því nær fjóra áratugi. Fjármögnunin hefur  á undanförnum árum verið með sérstöku gjaldi sem samið hefur verið um við atvinnulífið og er reiknað af tryggingagjaldsstofni.

Almennt hefur ríkt mikil ánægja með störf Útflutningsráðs, ráðgjafastarfið, hagvaxtar- og fræðsluverkefnin. Kom það ekki síst í ljósi í umsögnum fjölmargra aðila til Alþingis í vetur um frumvarpið sem nú er orðið að lögum um Íslandsstofu.

Þótt Útflutningsráð hafi með ýmsu sinnt ferðaþjónustu þá verður nú sú breyting á að þessi atvinnugrein mun öðlast enn meira vægi hjá Íslandsstofu enda munu framlög sem áður runnu til markaðsstarfs Ferðamálastofu  flytjast til Íslandsstofu.

Við þessi tímamót er rétt að þakka stjórn Útflutningsráðs, framkvæmdastjóra þess og starfsmönnum öllum frábærlega vel unnin störf. Það eru þessi störf og þekking sem starfsmenn ráðsins búa yfir sem munu leggja grunn að farsælu starfi Íslandsstofu. Einnig vil ég þakka samstarf við utanríkisráðherra, utanríkismálanefnd Alþingis og aðra þá sem komið hafa að undirbúningi hinnar nýju Íslandsstofu.

Ég óska stjórn og starfsfólki Íslandsstofu velfarnaðar í öllum sínum störfum til hagsbóta fyrir atvinnulífið og fólkið í landinu.

Vilmundur Jósefsson, formaður Samtaka atvinnulífsins.

Sjá nánar:

Upplýsingar um Íslandsstofu á vef Útflutningsráðs