Ísland verði áfram í fremstu röð

Forsenda þess að Ísland verði áfram í fremstu röð er undir því komin að stjórnvöld hafi metnað til þess að halda umgjörð efnahagslífsins áfram í fremstu röð, að tryggja íslenskum fyrirtækjum bestu starfsskilyrði, að draga úr reglubyrði og að viðhalda þeim trúverðugleika, sem byggður hefur verið upp undanfarin ár. Þetta er meðal þess sem kom fram í máli Ingimundar Sigurpálssonar, formanns SA í ræðu á aðalfundi SA. "Stjórnvöld verða að sýna ábyrgð og festu og þau verða að muna, að á tímum alþjóðavæðingar, þegar upplýsingar berast um heiminn á augabragði, þá leitar efnahagsstarfsemin þangað, þar sem starfsskilyrðin eru almennt hagstæðust. Trúverðugleiki, traust og stöðugleiki eru mikilvægir þættir í efnahagsstjórninni. Það veltur á miklu, að stjórnvöld hafi metnað til þess að halda áfram á þeirri braut að skapa atvinnulífinu svigrúm til athafna."

Aðalfundur 2007 - yfir sal

Ingimundur kom víða við í ræðu sinni og fjallaði m.a. um breytta aldurssamsetningu þjóðarinnar og áhrif á lífeyriskerfið. Hækkandi meðalaldur og fjölgun lífeyrisþega kalli á ný viðfangsefni þegar fram líði stundir. "Sjóðirnir hafa byggt loforð sín um ævilangar lífeyrisgreiðslur á því, að hver lífeyrisþegi verði um 17 ár á eftirlaunum. Æviskeið Íslendinga heldur á hinn bóginn áfram að lengjast og má við því búast, að 65 ára einstaklingur eigi um 24 ár ólifuð, þegar kemur fram á miðja þessa öld. Þessi staðreynd mun hafa í för með sér miklar breytingar á öllum sviðum samfélagsins."

Aðalfundur 2007 Ingimundur Sigurpálsson

Ræða Ingimundar Sigurpálssonar (PDF-skjal)