Ísland stendur vel að vígi í loftslagsmálum

Í pistli á vef SA í júlí síðastliðnum birtist yfirlit yfir frammistöðu ýmissa vestrænna ríkja við að ná markmiðum Kyoto-bókunarinnar. Þar kom fram að Ísland stendur einna best að vígi við að ná almennum markmiðum sínum og að árið 2003 hafi útstreymi verið 16% undir því sem heimilt verður að losa á árunum 2008 til 2012. Árið 2003 var útstreymi í Danmörku hins vegar 35% umfram það sem heimildir gera ráð fyrir og 7% umfram ESB í heild. Í Kanada var losunin 32% umfram heimildir og Bandaríkin losa 23% umfram það sem Kyoto-bókunin gerði ráð fyrir, en eins og kunnugt er fullgiltu þau ekki bókunina eftir að öldungadeild Bandaríkjaþings samþykkti ályktun gegn henni með 95 atkvæðum gegn engu.

Ísland í fremstu röð
Þegar útstreymi  ríkja er borið saman er gjarnan horft til þess hve efnahagskerfi þeirra veldur mikilli losun gróðurhúsalofttegunda. Sú eining sem valin er í því samhengi er útstreymi á hverja einingu landsframleiðslu. Í eftirfarandi töflu koma fram upplýsingar um losun nokkurra ríkja á þennan mælikvarða. Mælikvarðinn er tonn af koldíoxíðígildum á hverja milljón Bandaríkjadollara af landsframleiðslu á verðgildi ársins 2000 og hafa tölurnar um landsframleiðslu verið leiðréttar m.t.t. kaupmáttar. Allar helstu gróðurhúsalofttegundir hafa verið vegnar saman og mynda umrædd koldíoxíðígildi.  Í töflunni er að finna upplýsingar um ESB ríkin 15 sem hafa sameiginlega tekist á hendur að uppfylla ákvæði Kyoto-bókunarinnar 2008 - 2012 auk upplýsinga um losun Íslands og nokkurra annara vestrænna ríkja.   Auk þess er í töflunni tölur um útstreymi á hvern íbúa árið 2000.

Smellið á myndina

Útblástur 2006a

    

Ísland er eitt þeirra ríkja þar sem útstreymi er hvað minnst og er í 11. sæti af 165 ríkjum sem til eru tölur um á árinu 2000. Almennt er útstreymi á þennan mælikvarða mun hærra í löndum eftir því sem austar dregur  í Evrópu og losa til dæmis Pólverjar um 950 tonn, Hvítrússar um 1600 tonn og Rússar um 1900 tonn á hverja milljón dollara árið 2000. Í örfáum vestrænum ríkjum er útstreymi minna en á Íslandi. Frakkland og Svíþjóð eru fyrir neðan Ísland en skýringin er sú að stór hluti raforkuframleiðslu þeirra fer fram í kjarnorkuverum. Auk þess að vera í hópi þeirra ríkja sem menga hvað minnst á þennan mælikvarða þá er Ísland einnig í hópi þeirra ríkja þar sem dregið hefur einna mest úr útsreymi gróðurhúsalofttegunda, eða um 23% á tímabilinu 1990-2003.

Enn batnandi staða
Nýrri alþjóðlegur samanburður en frá árinu 2000 liggur ekki fyrir en þróunin hér á landi bendir til þess að staða landsins hafi enn batnað í samanburði við aðrar þjóðir. Á tímabilinu 1990 til 2003 var hagvöxtur 38,6% en á sama tíma jókst útstreymi gróðurhúsalofttegunda hér á landi um 7,7% og er þá meðtalin aukning vegna íslenska ákvæðisins við Kyotobókunina. Ef einungis er horft til almenns útstreymis, þ.e. án þess sem flokkast undir íslenska ákvæðið, þá hefur það minnkað um 32% á tímabilinu 1990 til 2003 á þennan mælikvarða, þ.e. koldíoxíðígildi á hverja einingu landsframleiðslu .

Ísland stendur einnig vel þegar litið er til útstreymis á hvern íbúa og er í hópi þeirra þróaðara ríkja þar sem losunin er minnst. Á tímabilinu frá upphafi árs 1990 til loka árs 2003 fjölgaði Íslendingum um 14,5% og á sama tíma minnkaði almennt útstreymi úr 3.282 þúsund tonnum í 3.083 þúsund tonn, en ef heimildir í íslenska ákvæðinu svokallaða eru taldar með var útstreymið í lok tímabilsins 3.534 þúsund tonn. Losun á hvern íbúa hefur því minnkað úr 12,9 tonnum í 10,6 tonn (-18%) en í 12,1 tonn á íbúa (-6%) ef heimildirnar í íslenska ákvæðinu eru taldar með.

Hvað tekur við eftir Kyoto?
Þegar kemur að því að ræða frekari skuldbindingar af Íslands hálfu og hvað skuli taka við þegar tímabili Kyoto-bókunarinnar lýkur er mikilvægt að átta sig á því hver líkleg þróun verður á þessu sviði hér á landi. Við blasir að þau vestrænu ríki þar sem útstreymi miðað við landsframleiðslu og mannfjölda er hátt munu eiga auðveldara með að taka á sig frekari skuldbindingar til minnkunar á losun en þau sem þegar hafa náð miklum árangri. Mikilvægt er að íslensk stjórnvöld hafi þetta í huga við stefnumótun fyrir það tímabil sem við tekur þegar Kyoto-bókunin hefur runnið sitt skeið árið 2012.

Á næstunni munu birtast nokkrir pistlar á vef SA þar sem fjallað verður um útstreymi gróðurhúsalofttegunda og álitamál er varða Ísland í því samhengi.

Upplýsingar í töflunni hér að ofan eru fengnar frá Climate Analysis Indicators Tool (CAIT) Version 3.0. (Washington, DC: World Resources Institute, 2006) en almennar upplýsingar um útstreymi hér á landi af vef Umhverfisstofnunar og um mannfjölda og landsframleiðslu af vef Hagstofunnar.