Ísland í fremstu röð á tíu árum

Samtök atvinnulífsins hafa sett fram metnaðarfulla stefnu: Að Ísland verði meðal 10 samkeppnishæfustu þjóða heims innan 10 ára. Náist það markmið verður atvinnulífið fjölbreyttara og það mun skila meiri arðsemi. Verðmætasköpun þjóðarinnar mun jafnframt aukast sem er forsenda fyrir betri lífskjörum Íslendinga. Stefnan verður kynnt á Ársfundi atvinnulífsins 2014 sem fram fer í Hörpu á morgun, fimmtudaginn 3. apríl kl. 14-16.

Ísland er í dag í 29. sæti yfir samkeppnishæfustu þjóðir heims skv. IMD rannsóknarstofnuninni í Sviss sem mælir árlega samkeppnishæfni þjóða. Á aðeins sjö árum hefur Ísland fallið niður um 25 sæti á lista IMD en sterk fylgni er á milli samkeppnishæfni og lífskjara.

Framkvæmdastjóri IMD rannsóknarstofnunarinnar, Stephane Garelli, mun ávarpa fundinn frá Luzern í gegnum Skype og greina hvað gerir þjóðir samkeppnishæfar. Hann mun jafnframt meta hvort það er raunhæft markmið fyrir Ísland að komast í hóp 10 samkeppnishæfustu þjóða heims á næstu 10 árum og hvað leggja þurfi helst áherslu á til að auka samkeppnishæfni Íslands.

Hægt er að skrá þátttöku á Ársfund atvinnulífsins hér að neðan en mikill áhugi er á fundinum og hafa um 400 manns boðað komu sína á fundinn. Þeir sem ekki eiga heimangengt geta horft á beina útsendingu frá ársfundinum á vef SA.

SMELLTU HÉR TIL AÐ SKRÁ ÞIG