Ísland hefur dregist aftur úr öðrum ríkjum

Þrátt fyrir að Ísland hafi um skeið búið við nokkurn hagvöxt sem hefur verið meiri en í mörgum öðrum ríkjum þá er fjarri lagi að Ísland hafi náð að endurheimta fyrri stöðu hvað verðmætasköpun varðar. Það er áhugavert að bera þróunina á Íslandi saman við Norðurlöndin og Evrópuríki almennt og er það gert í meðfylgjandi línuriti sem byggt er á ársfjórðungsgögnum frá hagstofu ESB, Eurostat.

Þar kemur m.a. fram að landsframleiðsla féll umtalsvert í flestum ríkjunum á skömmum tíma og náði botni árið 2009. Fallið var mest í Finnlandi, um 10% á 12 mánaða tímabili, en minnst í Noregi. Ísland sker sig úr í samanburðinum þar sem landsframleiðslan náði botni ári síðar en í hinum ríkjunum, með 10,6% samdrætti frá ársbyrjun 2008, og var þá komið í mun lakari stöðu en hin ríkin sem uxu tiltölulega hratt eftir að botninum var náð.

Meðal ríkjanna í samanburðinum er staðan best í Svíþjóð með 5% hærri landsframleiðslu á 3. ársfjórðungi 2012 en í ársbyrjun 2008. Danmörk og Finnland hafa enn ekki náð fyrri stöðu þar sem landsframleiðslan er 4% lægri og í evru-ríkjunum er staðan 2,6% lakari að meðaltali. Ísland stendur verst í þessum samanburði þar sem 5,6% vantaði á að landsframleiðslan í lok tímabilsins næði þeirri stöðu sem var í upphafi þess.


Þessum staðreyndum er vert að halda á lofti þar sem því er iðulega haldið fram að Ísland hafi náð undraverðum árangri og sé á góðri siglingu miðað við önnur ríki. Raunin er önnur eins og línuritið ber með sér. Hægt er að stækka myndina með því að smella á hana.

Smelltu á myndina til að stækka!