Ísland af stað

Gerð kjarasamninga í haust verður meginverkefni SA á næstunni og niðurstaða þeirra mun skipta sköpum um þróun íslensks efnahagslífs á næstu árum og jafnvel áratug. Valið stendur annars vegar um miklar kauphækkanir sem leiða til víxlhækkana launa og verðlags ásamt gengislækkunum og óðaverðbólgu og hins vegar um samfélagssátt sem felur í sér kjarasamninga sem taka mið af erfiðri stöðu alls almenns atvinnulífs, gríðarlegu atvinnuleysi, nauðsyn uppbyggingar. og fjárfestinga í atvinnulífinu.

Enginn ætti að velkjast í vafa um það að  fyrirtækjum og almenningi gagnast best að hér ríki lág verðbólga, lágir vextir, stöðugt gengi og efnahagsumhverfi sem stenst samanburð við það sem gerist í samkeppnislöndunum.

Kjarasamningarnir frá febrúar 2008 renna út í lok nóvember en þeir náðu til yfirgnæfandi hluta hins almenna vinnumarkaðar. Kjarasamningar opinberra starfsmanna eru jafnframt lausir á sama tíma en allir aðilar vinnumarkaðarins sammæltust um að endurnýja flesta samninga á svipuðum tíma.

Við gerð almennra kjarasamninga í febrúar 2008 höfðu samningsaðilar þær væntingar að í lok samningstímans mætti gera langtímasamninga sem byggðu á hóflegum launabreytingum og stöðugleika í efnahagslífinu. Þá var gert sérstakt átak til að þess hækka lægstu laun og kauptaxta og skapa nauðsynlegt jafnvægi á vinnumarkaðnum eftir mikið uppgangstímabil. Við næstu samningsgerð er því ekki þörf á að glíma við ójafnvægi milli einstakra hópa á almennum vinnumarkaði.

Helsta ójafnvægið sem nú ríkir á hinum almenna vinnumarkaði stafar af því að gengi krónunnar er svo lágt að útflutningsgreinar eru mun betur í stakk búnar til þess að taka á sig kostnaðarhækkanir en þær greinar sem þjóna heimamarkaði en margar þeirra hafa orðið hart úti vegna samdráttar í fjárfestingum og einkaneyslu. Á árum áður var iðulega glímt við hið gagnstæða þar sem hátt gengi gerði útflutningsfyrirtækjum erfitt fyrir meðan heimamarkaðsgreinar voru í mun betri stöðu.

Milli almenna vinnumarkaðarins og hins opinbera ríkir í aðalatriðum þokkalegt jafnvægi að lífeyrismálum undanskildum. Opinberir starfsmenn hafa þó ekki þurft að þola teljandi atvinnuleysi miðað við almenna vinnumarkaðinn þótt það geti breyst.

Það er ekki með öllu vonlaus sýn að gera langtímasamning fyrir allan vinnumarkaðinn með hóflegum launabreytingum á grundvelli lágrar verðbólgu og stöðugleika þrátt fyrir bankahrunið og efnahagsáföll. Mikilvægt er að leita sambærilegra lausna fyrir allan vinnumarkaðinn.

Meginmarkmið Samtaka atvinnulífsins er að koma atvinnulífinu af stað og skapa störf á nýjan leik þannig að forsendur skapist fyrir batnandi lífskjörum. Laun verða ekki hækkuð frekar meðan atvinnuleysi er í hámarki og engar horfur á því að atvinnulífið rétti úr kútnum.

Samskipti við stjórnvöld verða mikil við gerð næstu kjarasamninga en draga verður lærdóm af því hvernig til tókst með stöðugleikasáttmálann frá júní 2009 og ganga mun traustar frá málum en þá var gert.

Fjárfestingar í atvinnulífinu verða að komast á skrið. Stórar fjárfestingar í iðnaði og orkuvinnslu þurfa að verða að veruleika. Ekki er síður mikilvægt að hin fjölmörgu litlu og meðalstóru fyrirtæki sjái sér fært að hefja fjárfestingar á nýjan leik. Fjárfestingar í atvinnulífinu eru svo litlar nú, og verða það á næstunni, að það dregur úr vaxtarmöguleikum efnahagslífsins til framtíðar. Ennfremur verður að fylgja eftir áformum um fjárfestingar í samgöngumannvirkjum með aðkomu lífeyrissjóða.

Ríkisfjármálin verða mikið til umfjöllunar á komandi mánuðum. Það er þörf á verulegri lækkun útgjalda ríkisins til þess að ná jafnvægi í ríkisbúskapnum. Skattar hafa verið hækkaðir um rúma 70 milljarða króna á ári og lengra verður ekki gengið í þeim efnum fyrr en árleg útgjöld ríkissjóðs hafa verið lækkuð um 50 milljarða króna. Samtök atvinnulífsins munu því standa fast gegn áformum um frekari skattahækkanir.

Lífeyrismál verða ennfremur eitt af stórum viðfangsefnum næstu kjarasamninga. Lífeyrissjóðir á vegum opinberra aðila voru með yfir 500 milljarða króna tryggingafræðilegan halla í árslok 2008 sem er ávísun á miklar skattahækkanir í framtíðinni. B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins tæmist eftir áratug og þá þarf ríkissjóður að leggja henni til árlega meira en 1% af landsframleiðslu í meira en áratug. Vandamálin eru því miklu nær í tíma en oft er talið og stækka ár frá ári á meðan ekki er á þeim tekið.

Sá mikli munur sem er á lífeyrisréttindum á almennum vinnumarkaði og hjá hinu opinbera fær ekki staðist. Á almennum vinnumarkaði þurfa lífeyrissjóðir að rísa undir skuldbindingum sínum og skerða réttindi þegar illa árar en opinberu sjóðirnir eru með ótakmarkaða ábyrgð launagreiðenda og þar með skattgreiðenda.

Gerð kjarasamninga næsta haust verður ekki auðveld. Samtök atvinnulífsins eru tilbúin í verkefnið. Besta niðurstaðan er að atvinnulífið komist af stað þannig að störf skapist, hratt dragi úr atvinnuleysi og lífskjör batni. Að því vilja Samtök atvinnulífsins vinna.

Vilhjálmur Egilsson