Ísland á Evrópumet í hækkun skatta

Skattar á einstaklinga og fyrirtæki hafa hækkað um þriðjung hér á landi frá árinu 2008 en þróunin hefur almennt verið í hina áttina á Norðurlöndunum. Þetta kemur fram í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Skattar á Íslandi eru almennt hærri en gengur og gerist í Evrópusambandinu og OECD og hafa hækkað umtalsvert á síðustu fimm árum. Viðskiptablaðið vísar til gagna KPMG um skattstig landa í heiminum. Ekkert Evrópuríki hefur hækkað skatta á einstaklinga og fyrirtæki jafnskarpt og Ísland hefur gert á tímabilinu.

Í umfjöllun Viðskiptablaðsins segir m.a.:

"Hlutfallslega hafa skattar á tekjur fyrirtækja hækkað mest á Íslandi frá árinu 2008, eða um 33,3%. Árin 2008 og 2009 voru þeir 15%, en eru nú 20%. Í Noregi og Danmörku hafa þeir haldist óbreyttir, í 28% og 25%, en Finnar hafa lækkað sína fyrirtækjaskatta úr 26% í 24,5% og Svíar úr 28% í 26,3%. Meðaltal fyrirtækjaskatta í Evrópu hefur lækkað úr 22% í 20,6% og í OECD-löndunum hefur meðaltalið lækkað úr 26,08% í 25,37%. Með öðrum orðum er Ísland eina ríkið í þessum samanburði sem hefur hækkað skatta á fyrirtæki á undanförnum árum."

Viðskiptablaðið bendir jafnframt á að skattar á einstaklinga hafi einnig hækkað umtalsvert meira hér á landi en annars staðar. Hæsta skattstig á Íslandi hefur hækkað úr 35,7% árið 2008 í 46,24%, sem er hlutfallsleg hækkun upp á 29,5%. Skattar í Noregi hafa haldist óbreyttir í 47,8% á þessu tímabili, en í Danmörku hafa þeir lækkað úr 62,28% í 55,38%. Í Finnlandi og Svíþjóð hafa þeir lækkað eilítið og eru 49,0% og 56,6%.

Samtök atvinnulífsins bentu á það í nóvember 2011 ( Rjúfum kyrrstöðuna. Leiðir til betri lífskjara) að Ísland væri háskattaland. Í opinberri umræðu var því haldið fram að skattar á Íslandi væru ekki sérstaklega háir í alþjóðlegum samanburði, einkum í samanburði við Norðurlöndin, og því væri svigrúm til að hækka þá til að ná tökum á rekstri ríkissjóðs. Í riti SA sagði hins vegar:

"Staðreyndin er hins vegar sú að skattar eru mjög háir á Íslandi í alþjóðlegum samanburði, hvort sem um er að ræða óbeina skatta, tekjuskatta eða eignarskatta. Í skýrslu AGS um íslenska skattkerfið, sem gefin var út í júní 2010, kemur fram að Ísland er háskattaríki og bentu skattasérfræðingar AGS á að fara þyrfti mjög varlega í aukna tekjuöflun því annars gæti íslenskt efnahagslífið orðið fyrir alvarlegum skaða."

Því miður hefur lítið mark verið tekið á þessum varnaðarorðum en fullt tilefni er til að endurskoða skattastefnu stjórnvalda. Jöfnuður í ríkisfjármálum er lykilatriði í endurreisn íslensks efnahags en rétt er að halda því til haga að opinber útgjöld á Íslandi eru mikil. Þannig er Ísland í hópi þeirra ríkja innan OECD sem verja hlutfallslega mestum fjármunum til almennrar opinberrar þjónustu, heilbrigðismála og menntamála. Ísland ver þriðja hæsta hlutfallinu til opinberrar þjónustu, fjórða hæsta hlutfallinu til heilbrigðismála og hæsta hlutfallinu til menntamála.

Sjá nánar í umfjöllun Viðskiptablaðsins 2. ágúst 2012

Tengt efni:

Rjúfum kyrrstöðuna. Leiðir til betri lífskjara (PDF)

Grein formanns SI um skattamálin í Fréttablaðinu 7. ágúst 2012