Ísland á botninum

Ný skýrsla Loftslagsstofnunar Sameinuðu þjóðanna fjallar um möguleika til að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda hjá þeim ríkjum sem falla undir Kyoto-bókunina og nokkrum öðrum.  Á næstu árum verður lögð megináhersla á að draga úr útstreymi við orkuframleiðslu sem byggir á að nýta kol, olíu og jarðgas. Beitt verður ýmsum aðferðum við það s.s. að bæta nýtingu í orkuverum, hreinsa útstreymi, koma útstreyminu fyrir í jarðlögum og svo framvegis. Einnig verður lögð mikil áhersla á að auka notkun endurnýjanlega orkugjafa s.s. vindorku, vatnsafl og jarðvarma. Nýting kjarnorku mun einnig aukast. Gríðarlega mikið verður lagt upp úr því að spara orku með einangrun bygginga, minni orkunotkun tækja og sífellt betri nýtingu orkunnar í atvinnulífi og á heimilum.

Sérstaða Íslands ótvíræð

Í þessu samhengi er áhugavert fyrir Íslendinga að sjá að þeir nota hlutfallslega langminnst af jarðefnaeldsneyti og að hlutur þess er einungis 27,5% af heildarorkunotkun þjóðarinnar. Þetta stafar af því að hér er einungis notuð endurnýjanleg orka til raforkuframleiðslu og til upphitunar og hefur svo verið um áratugi. Önnur ríki standa því frammi fyrir að leysa vandamál á þessu sviði sem löngu hefur verið leyst hér landi.

Smelltu til að sjá stærri útgáfu!

Smellið á myndina til að sjá stærri útgáfu 

Eins og sjá má í töflunni er algengt að jarðefnaeldsneyti fullnægi 80% -98% af orkuþörf vestrænna ríkja. Írland er hæst á þessum lista með 98% en hjá ESB í heild eru tæp 80% orkunnar frá kolum, olíu eða jarðgasi. Einungis hjá einu ríki auk Íslands er minna en 50% orkunnar úr jarðefnaeldsneyti en í Svíþjóð er þetta hlutfall 37% en eins og kunnugt er nota Svíar kjarnorku og vatnsafl í miklum mæli.

Útstreymi við orkuframleiðslu langlægst á Íslandi

Einnig leiðir þetta til að útstreymi gróðurhúsalofttegunda við orkuframleiðslu er mjög mikið í ríkjunum. Mest er útstreymið í Ástralíu um 840 grömm CO2 á hverja framleidda kílóvattstund, í ESB er það 370 grömm á kílóvattstund og í Noregi 7 grömm á hverja kílóvattstund. Ísland er hér langlægst en útstreymið er um 1 gramm CO2 á hverja framleidda kílóvattstund.

Afleiðingar þessa er að hér á landi standa ekki til boða sömu aðferðir til að draga úr útstreymi á næstu árum eins og hagkvæmastar verða í nálægum löndum. Stjórnvöld hljóta að taka mið af þessu þegar kemur að því að undirbúa næstu skref í viðræðum um hvað taki við þegar tímabili Kyoto-bókunarinnar lýkur árið 2012.

Sjá nánar á vef Loftslagsstofnunar Sameinuðu þjóðanna