Inn við beinið erum við öll eins

Í árslok 2005 voru 13.778 erlendir ríkisborgarar með lögheimili á Íslandi. Á sama tíma voru 15.045 Íslendingar með lögheimili á Norðurlöndunum en auk þess býr fjöldi Íslendinga í öðrum löndum víða um heim. Erlendir ríkisborgarar á Íslandi voru frá 122 löndum og voru flestir frá Póllandi (3.221), Danmörku (903), Þýskalandi (781), Filippseyjum (771) og frá löndum fyrrum Júgóslavíu (703). Félagasamtökin Ísland Panorama standa um þessar mundir fyrir herferð undir yfirskriftinni Inn við beinið erum við öll eins en markmið samtakanna er meðal annars að vinna að auknum skilningi og gagnkvæmri virðingu fólks af ólíkum uppruna sem búsett er á Íslandi.  

 

Hluti af herferðinni er útgáfa á upplýsingaplakati en á því segir m.a. "Í umræðunni um mikinn aðflutning fólks til Vestur-Evrópu og Íslands, er sjaldan rifjað upp að Evrópubúar hafa flutt í stórum stíl til annarra heimsálfa. Á tímabilinu 1820-1930 fluttu um 52 milljónir frá Evrópu til Ameríku og 3,5 milljónir til Ástralíu og Nýja-Sjálands. Auk þess fluttu margir til skemmri eða lengri tíma til nýlendna Evrópuríkja í Afríku og Asíu. Frá Íslandi fluttu um fimmtán þúsund til Norður-Ameríku í von um betra líf en þeim bauðst í sveitum og sjávarplássum landsins. Í dag lesum við með stolti viðtöl við afkomendur íslenskra innflytjenda í Kanada, sem enn varðveita eitthvað úr íslenskri menningu. Getum við ekki glaðst líka yfir því ef aðflutt fólk fær ný tækifæri á Íslandi og vill halda við þáttum úr sinni upprunamenningu?"

Sjá nánar: Upplýsingaplakat Ísland Panorama (PDF-skjal)