Iðnaðar- og viðskiptaráðherra vill hlúa að litlu fyrirtækjunum

Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, tók þátt í Smáþingi á dögunum þar sem málefni lítilla og meðalstórra fyrirtækja voru til umræðu. Ragnheiður Elín flutti lokaorð þingsins og brást við því sem fram kom á þinginu. Hún þakkaði fyrir tækifærið til að hlusta á raddir minni fyrirtækjanna og sagði brýnt að hlúa vel að þeim. Jafnframt kallaði hún eftir sjónarmiðum lítilla fyrirtækja í þeirri vinnu sem er framundan við að bæta starfsumhverfi fyrirtækjanna.

Ragnheiður Elín benti á að margt af því sem hefði komið fram á þinginu væri á stefnuskrá ríkisstjórnarinnar, annað hvort í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar eða á verkefnalistum ráðherra. T.d. verkefni um einföldun regluverks atvinnulífsins en ítrekað var bent á það á Smáþingingu að of þung reglubyrði takmarki vöxt lítilla fyrirtækja sem séu helsta uppspretta nýrra starfa á vinnumarkaði.

Ragnheiður greip á lofti bolta sem Þorvarður Gunnarsson, forstjóri Deloitte henti upp á þinginu, en hann sagði brýnt að laga kröfur um endurskoðun að stærð fyrirtækja í takt við nýlegar lagabreytingar í Danmörku. Ragnheiður Elín sagði þetta mál heyra undir viðskiptaráðuneytið og því væri hægt að hefja skoðun á því strax.

Iðnaðar- og viðskiptaráðherra sagðist geta tekið undir allt það sem Pétur Jónsson, framkvæmdastjóri Medialux, sagði í erindi sínu á Smáþinginu. Öll fyrirtæki eigi að geta unnið saman og það sé leiðinlegur ósiður að etja atvinnugreinum hverri gegn annarri. Mikilvægt sé að byggja upp fjölbreytta flóru fyrirtækja á Íslandi af öllum stærðum og gerðum. Ragnheiður sagði ennfremur mikilvægt að vettvangur eins og Litla ísland væri orðinn til því halda þyrfti röddum smærri fyrirtækja á lofti.

Almennar lausnir hugnast ráðherra mun betur en sértækar lausnir þegar kemur að því að bæta viðskiptaumhverfið því þannig þurfi ekki á sérstökum ívilnunum að halda. Stefna ætti að því - óháð pólitík - að íslensk fyrirtæki búi við hóflega skattheimtu vegna þess að það skili ríkinu meiri tekjum eins og kom skýrt fram í erindi Páls Jóhannessonar og Andra Guðmundssonar á Smáþinginu.

Ragnheiður Elín sagði ljóst að stjórnkerfið þurfi að vinna betur með atvinnulífinu, en sameiginlegt markmið allra eigi að vera að ná betri árangri sem þjóð, þar sem bæði lítil og stór fyrirtæki hafi hlutverki að gegna. Samkeppnismálin skipti í því samhengi miklu máli, ekki síst fyrir litlu fyrirtækin. Það sé ekki glæpur að vera í markaðsráðandi stöðu en það sé glæpur að misbeita markaðsráðandi stöðu. Fjölmargir hafi haft á orði að betri leiðsögn vanti frá kerfinu og við því hafi verið brugðist, m.a. með bættri upplýsingagjöf. Einnig standi til að setja á laggirnar formlegan samstarfsvettvang Samkeppniseftirlitsins, viðskiptaráðuneytisins og atvinnulífsins. Meginmarkmiðið sé að öflug samkeppni sé til staðar í íslensku atvinnulífi.

Iðnaðar- og viðskiptaráðherra kom víðar við í ræðu sinni, ræddi m.a. um baráttu gegn svartri atvinnustarfsemi og kennitöluflakki auk þess sem hún sagði brýnt að gera átak í því að fyrirtæki skili ársreikningum sínum í sama mæli á Íslandi og í öðrum löndum. Þá tók hún undir með Helgu Margrét Reykdal um mikilvægi þess að hér sé heilbrigt verktakaumhverfi þannig að vinnumarkaðurinn sé sveigjanlegur og fyrirtæki geti ráðið hæft starfsfólk til verka þegar á þarf að halda.

Hægt er að horfa á upptöku af erindi Ragnheiðar Elínar hér að neðan.

Vel á fjórða hundrað þáttakenda tók þátt í Smáþinginu en Samtök atvinnulífsins og sjö aðildarsamtök SA stóðu að þinginu. Allt efni þingsins er aðgengilegt á fésbókarsíðu Litla Íslands þar sem er opinn umræðuvettvangur fyrir lítil fyrirtæki á Íslandi.

Fylgstu með okkur: www.facebook.com/LitlaIsland