Icelandair þjónustufyrirtæki ársins 2011

Icelandair var valið besta þjónustufyrirtæki ársins 2011 á þjónusturáðstefnu SA og SVÞ-Samtaka verslunar og þjónustu sem fram fór í gær. "Þjónustuvitund, stefnumótandi þjónustustefna, viðbragðsflýtir og sveigjanleiki gagnvart utanaðkomandi rekstrarþáttum s.s. krísum og vel skilgreind þjónustukeðja eru helstu ástæður þess að Icelandair varð fyrir valinu," segir í umsögn valnefndar.

Uppselt var á ráðstefnuna og ríkti þar mikil gleði en yfirskrift ráðstefnunnar var Framúrskarandi þjónusta með bros á vör

Icelandair

Margrét Kristmannsdóttir, formaður SVÞ, Einar Örn Einarsson, flugþjónn hjá Icelandair, Inga Jasonardóttir, sölumaður hjá Icelandair og Ásbjörn Valur Sigurgeirsson, starfsmaður Bílastæðasjóðs.

Ásbjörn Valur Sigurgeirsson, starfsmaður Bílastæðasjóðs var einnig verðlaunaður fyrir framúrskarandi þjónustu. Ásbjörn Valur hefur starfað hjá Bílastæðasjóði síðan 1992 og lengst af í bílageymslunni á móti Þjóðleikhúsinu og kunna margir góðar sögur af Ásbirni eftir að hafa átt í samskiptum við hann. Dr. Árelía Eydís Guðmundsdóttir formaður valnefndar sagði þetta um valið:

"Ásbjörn hefur verið nefndur alveg síðan ég byrjaði að kenna fyrir allnokkrum árum, sem sá einstaklingur sem fer fram úr væntingum þegar kemur að þjónustu. Margir hafa sagt að Ásbjörn breyti deginum með jákvæðni og frábærri þjónustulund. Það er því mikill heiður að fá að veita honum þessa viðurkenningu".

Auk verðlaunaafhendingarinnar fjallaði André Wiringa um það hvernig veita megi framúrskarandi þjónustu með því að beita FISH! hugmyndafræðinni sem vakið hefur heimsathygli. Hann sagði m.a. frá því hvernig gera megi vinnustaðinn áhugaverðari, skemmtilegri, arðsamari og árangursríkari um leið og viðskiptavinirnir eru hafðir í öndvegi.

Uppselt var á ráðstefnuna á Grand Hótel Reykjavík