Icelandair hlaut Þekkingarverðlaunin 2011

Íslensku þekkingarverðlaunin voru afhent á Íslenska þekkingardeginum sem haldinn var á Hilton Reykjavík Nordica í gær. Flugfélagið Icelandair hlaut verðlaunin og var Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair jafnframt valinn viðskiptafræðingur ársins. Forseti Íslands afhenti verðlaunin en auk Icelandair hlutu Samherji og Rio Tinto Alcan á Íslandi viðurkenningu fyrir verðmætasköpun fyrirtækjannna.

Birkir Hólm Guðnason, Icelandair, Þorsteinn Már Baldvinsson, Samherja, og Sigurður Þór Ásgeirsson Rio Tinto Alcan á Íslandi.

 Félag viðskiptafræðinga og hagfræðinga (FVH) stóð fyrir Íslenska þekkingardeginum í 11. sinn en hann var að þessu sinni haldinn í samstarfi við Samtök atvinnulífsins og Samtök iðnaðarins.

Í umsögn dómnefndar segir að Icelandair sé einn af máttarstólpum íslensks atvinnulífs sem hafi skapað mikil verðmæti bæði fyrir land og þjóð. Fyrirtækið hafi haldið sínu striki og skilað verulegum tekjum í þjóðarbúið þrátt fyrir ágjöf. Icelandair hafi á undanförnum árum ráðist í miklar breytingar og hagræðingaraðgerðir en á sama tíma sótt fram. Á síðasta ári var einingakostnaður Icelandair t.d. þriðji lægsti í Evrópu á eftir Easy Jet og Ryan Air og félagið eitt af 10 best reknu flugfélögum í Evrópu. Almennt má segja að Icelandair hafi náð góðum rekstrarárangri í umhverfi sem einkennist af gríðarlegri samkeppni og erfiðum ytri skilyrðum.

Um viðskiptafræðing ársins 2010, Birki Hólm Gunnarsson, segir m.a. í umsögn dómnefndar:

"Þegar Birkir tók við starfi framkvæmdastjóra Icelandair fylgdi það sögunni að blikur væru á lofti í alþjóðaflugi vegna eldsneytisverðhækkana og óvissu um eftirspurn vegna ástands efnahagsmála. En þó Birkir hafi matt búast við krefjandi og erfiðu starfi, þá er líklega óhætt að segja að fáa hafi órað fyrir öllum þeim stóráskorunum sem í vændum voru, frá efnahagshruni hér innanlands samhliða dúpri efnahagslægð á heimsvísu, til eldgoss í Eyjafjallajökli.

Undir stjórn Birkis hefur Icelandair tekist undravel að glíma við þessar áskoranir. Ef til vill ber viðbrögðin við eldgosinu í Eyjafjallajökli hæst. Um alla Evrópu urðu stórfelldar truflanir á flugi og óhætt er að fullyrða að áhrifin á Icelandair voru meiri og alvarlegri en fyrir flest flugfélög. Icelandair brást við með því að flytja miðstöð áætlanaflugs síns frá Keflavík til Glasgow á einni nóttu. Og á sama tíma og endalausar fregnir bárust af megnri óánægju viðskiptavina flugfélaga vegna skorts á upplýsingum og samskiptum, þá tókst Icelandair betur en flestum að bregðast við þörfum viðskiptavina sinna og halda þeim vel upplýstum um stöðu mála.

Þrátt fyrir allar þær erfiðu áskoranir sem stjórnendur Icelandair hafa glímt við, þá hefur á sama tíma tekist að snúa rekstri félagsins til betri vegar. Þann rekstrarbata má ekki síst þakka viðsnúningi í rekstri Icelandair, meðal annars vegna mikillar aukningar í farþegatekjum vegna bættrar sætanýtingar og góðrar tekjustýringar í leiðakerfinu."

Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson og Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair.

Sjá nánar:


Fyrirtæki ársins - rökstuðningur dómnefndar

Viðskiptafræðingur ársins - rökstuðningur dómnefndar