Hvort er farsælla að fjárfesta í ríkisskuldum eða atvinnulífinu?

Arðgreiðslur HB Granda hafa verið fréttaefni að undanförnu eins og jafnan undangengin ár. Af tiltekinni umfjöllun mætti ráða að arðgreiðslurnar séu óeðlilega háar. Það er fjarri lagi því áhættufjárfestingar á borð við kaup á hlutabréfum fyrirtækja eru atvinnulífinu lífsnauðsynlegar. Án arðgreiðslna af hlutafé yrði lítið um fjárfestingar í nýsköpun, störfum fækkaði og lífskjör almennings rýrnuðu.

Arður af hlutafé er sambærilegur við vexti af ríkisskuldabréfum en sá grundvallarmunur er á þessu tvennu að arðurinn er ekki í hendi og fer eftir velgengni viðkomandi fyrirtækja. Hlutaféð getur tapast og þess vegna eru gerðar meiri kröfur um arðsemi af innborguðu hlutafé í fyrirtækjum en vexti af áhættulausum ríkisskuldabréfum eða innlánum í bönkum.

Vel rekin fyrirtæki sem skila hluthöfum sínum arði leggja grunn að öflugu atvinnu- og þjóðlífi. Það gildir jafnt um lítil fjölskyldufyrirtæki, meðalstór iðnfyrirtæki og sjávarútvegsfyrirtæki almennt.

HB Grandi er eitt stærsta útgerðarfyrirtæki landsins og er skráð á First North, hliðarmarkað Nasdaq OMX Nordic Exchange. Fyrirtækið gerir út 12 fiskiskip og vinnur fiskafurðir á sjó, í Reykjavík, á Akranesi og Vopnafirði. Meðalfjöldi ársverka árið 2012 hjá félaginu var 844 og námu laun og launatengd gjöld samtals 9,3 milljörðum króna 2012.

Á aðalfundi HB Granda sem fór nýverið fram ákvað stjórn félagsins að greiða hluthöfum 1 krónu í arð á hvern hlut eða 1,7 milljarð króna. Arðgreiðslan nemur 6% af eigin fé eða 6,7% af markaðsvirði hlutafjár í lok árs 2012.

Þetta er hófleg ávöxtun því ávöxtun óverðtryggðra ríkisskuldabréfa er nú rúm 6%, þ.e. ávöxtun hluthafa á fé sitt er svipuð og býðst á ríkisbréfum. Undanfarin ár hafa arðgreiðslurnar verið mun minni en nú og ávöxtun hluthafa því langt undir þeim vöxtum sem bjóðast af ríkisbréfum. Vextir ríkisbréfa eru afar lágir um þessar mundir og í ljósi áhættulausrar fjárfestingar í ríkisbréfum verður að telja umrædda arðgreiðslu HB Granda, sem nemur 6% af eigin fé, lága og spyrja má hvort þeir sem gagnrýna arðgreiðslur telji eðlilegra að beina fjármunum til ríkisins en til fjárfestingar í atvinnulífinu.