Hvetur fyrirtæki til að leggja sitt af mörkum við uppfærslu Íslands

Marín Magnúsdóttir eigandi viðburða- og ferðaþjónustufyrirtækisins Practical var ein þeirra sem flutti erindi á aðalfundi Samtaka atvinnulífsins 2012. Marín þakkaði SA fyrir uppbyggjandi og hvetjandi yfirskrift fundarins, Uppfærum Ísland, og lýsti í ræðu sinni þeim aðgerðum sem Practical hefur þurft að grípa til á síðustu árum. 

Ræða Marínar var á jákvæðum nótum og ekki að heyra neinn uppgjafartón í orðum hennar þrátt fyrir miklar sviptingar í rekstri fyrirtækisins á síðustu 4 árum. Í ræðu sinni hvatti hún fundargesti til að ljúka uppgjöri við fortíðina og einblína á framtíðina og þau tækifæri sem í boði eru. "Það er erfitt að sjá tækifærin á meðan við erum á kafi í varnarbaráttu" sagði Marín meðal annars.

Marin 1

Hún lýsti starfsemi og sögu fyrirtækisins á einkar myndrænan og skemmtilegan hátt þar sem stuðst var við myndlíkingar af skemmtiferðaskipi, orrustuskipi og seglskútu. Marín lýsti rekstrarumhverfi Practical á uppgangsárunum eins og að stýra skemmtiferðaskipi en hún stofnaði fyrirtækið þegar hún snéri heim úr námi árið 2004. Fjölmörg spennandi en jafnframt krefjandi verkefni og starfsmenn á kafi í vinnu út um allan heim, bæði fyrir íslensk fyrirtæki í útrás sem og erlenda hvataferðahópa sem sóttu Ísland heim.

Á einni nóttu segir Marín að hún og starfsmenn hennar hafi þurft að rýma skipið og finna sér annan farkost.  Fyrir valinu varð orrustuskip enda barátta upp á líf og dauða framundan. Allar forsendur breyttust og meiri tími fór í að verja en sækja. Á þessum tíma hafi tekjur verið lægri en gjöld og hún hafi velt því fyrir sér hvort að best væri að pakka saman og hætta.


Marín sagði í ræðu sinni að hún hafi tekið meðvitaða ákvörðun um að uppfæra fyrirtækið, horfa fram á veginn og trúa því að með vinnusemi og trú á verkefninu væri ekkert ómögulegt.

Practical leggur nú enn meiri áherslu á að sækja hópa til landsins og hyggst meðal annars nýta sérstöðu sína á íslenskum fyrirtækjamarkaði til þess að sækja fram. Rekstrarumhverfinu í dag líkir hún við seglskútu og segir Practical vera að nýta þann meðbyr sem fylgir ferðaþjónustunni í dag.

Marin 2

"Framundan eru fjölmargar áskoranir og tækifæri sem við verðum að grípa ef við ætlum okkur að ná árangri" sagði Marín og vísaði þar ekki eingöngu til Practical heldur til íslensks atvinnulífs í heild. 

Hópinn heim

Marín kynnti að auki spennandi nýjung hjá Practical sem miðar að því að virkja tengsl íslensks atvinnulífs.  Verkefnið ber heitið "hópinn heim" og hefur fyrirtækið útbúið aðgerðarplan, einskonar verkfærakistu sem nýtist stjórnendum og forsvarsmönnum íslensks atvinnulífs til þess að beinlínis hvetja sína tengiliði til þess að halda ráðstefnu, viðburð eða hvataferð á Íslandi.

Aðspurð segir Marín að fyrirtækið hafi unnið að undirbúningi verkefnisins í nokkurn tíma og að það sé ekki síst tilkomið vegna þess að hún finni fyrir raunverulegum áhuga hjá stjórnendum í íslensku atvinnulífi.  "Við höfum orðið vör við þetta hjá okkar viðskiptavinum sem margir hverjir eru að sækja þessa viðburði út um allan heim og hugsar af hverju ekki Ísland?"  Marín segir að nú sé komið að atvinnulífinu að nýta sér þann meðbyr sem er í ferðaþjónustunni og um leið nýta tækifærið til þess að efla tengsl og samband við höfuðstöðvar sinna birgja eða viðskiptavina. Marín sagði jafnframt að á næstu vikum og mánuðum verði verkefnið kynnt markvisst fyrir íslenskum fyrirtækjamarkaði og hún er sannfærð um að fleiri en færri muni sjá sér hag í því að taka þátt í því að uppfæra Ísland og færa björg í bú.

Tengt efni:

Tillögur SA: Uppfærum Ísland