Hvert stefna fjármál ríkisins?

Samtök atvinnulífsins í samráði við Félag forstöðumanna ríkisstofnana og Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands efna til morgunverðarfundar á Grand Hótel Reykjavík miðvikudaginn 27. janúar um stöðu og horfur í ríkisfjármálum 2010-2013 og nauðsynleg viðbrögð. Fjallað verður um mögulegar umbætur í fjárlagagerðinni og hvort nauðsynlegt sé að grípa til róttækra aðgerða. 

Fundarstjóri er Guðbjartur Hannesson,  formaður fjárlaganefndar Alþingis en frummælendur eru Björn Rúnar Guðmundsson,skrifstofustjóri í efnahags- og viðskiptaráðuneytinu, Frosti Ólafsson, hagfræðingur og aðstoðarframkvæmdastjóri Viðskiptaráðs og Sjöfn Sigurgísladóttir, forstjóri Matís.

Björn Rúnar mun fjalla um stöðuna í ríkisfjármálunum og nauðsynlegar aðgerðir til 2013, Frosti mun ræða um hvort þörf sé á róttækum breytingum í ríkisfjármálunum og Sjöfn mun fjalla um umbætur í fjárlagagerðinni.

Að afloknum erindum fara fram umræður og fyrirspurnir undir stjórn Ólafar Nordal alþingismanns.

Í umræðum taka þátt auk frummælenda Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri SA, Katrín Ólafsdóttir hagfræðingur og lektor við Háskólann í Reykjavík og Ólafur Darri Andrason, forstöðumaður hagdeildar Alþýðusambands Íslands.

Margrét Björnsdóttir, hjá Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands setur fundinn en hann stendur frá  kl. 8:30-10:00.

Skráning og léttur morgunverður frá kl. 8:15 - ekkert þátttökugjald - fundurinn fer fram í salnum Gullteig.

Morgunverðarfundurinn er haldinn í framhaldi af ráðstefnunni Er að marka fjárlög? sem fram fór 17. nóvember 2009.

SMELLIÐ HÉR TIL AÐ SKRÁ ÞÁTTTÖKU