Hvernig á að fallbeygja kýr?

SVÞ-Samtök verslunar og þjónustu standa ásamt fleiri aðilum að sérstöku átaki til að virkja Íslendinga til að hjálpa erlendu starfsfólki í verslunar- og þjónustustörfum að tala íslensku. Framleidd voru sérstök barmmerki með mismunandi áletrunum, m.a. spurningunni um hvernig skuli fallbeygja orðið kýr, en einnig má fá merki með yfirlýsingunni: Íslenska er mínar ær og kýr.

Merkjunum er ætlað að minna á að það tekur tíma að læra nýtt tungumál, að það verður að sýna þolinmæði og jákvæðni og hvatning sakar ekki. Jafnframt er minnt á að íslenskan er jafnvel erfið þeim sem eiga hana að móðurmáli og því þarf fólk að sýna þeim skilning sem eru að læra íslensku.

Fólki er bent á að tala ekki ensku að fyrra bragði, að tala íslensku nema beðið sé um annað, að gefa sér tíma til að hlusta og eiga samræður á íslensku þrátt fyrir takmarkaðan orðaforða viðmælanda. Ef viðmælandi skilur ekki þá er ráð að endurtaka og hækka ekki róminn heldur tala hægar eða að breyta um orðalag og nota einfaldari orð. Forðast ber að nota barnamál.

Barmmerkin má m.a. nálgast hjá aðildarfyrirtækjum SVÞ um land allt.

Sjá nánar á vef SVÞ