Hverjir mega vinna í verkfalli?

Starfsgreinasambandið (SGS) hefur samþykkt verkfallsaðgerðir vegna kjaradeilu félagsins við Samtök atvinnulífsins. Á vef SA er að finna nýja samantekt um verkföll þar sem m.a. er að finna svör um hverja verkfallsboðun bindur og hverjir megi vinna í verkfalli. SA vinna að því hörðum höndum að leysa deiluna en kröfur SGS hljóða upp á 50-70% almenna hækkun launa og að hæstu laun hækki hlutfallslega mest.

12-14% stýrivextir
Á ofangreindar kröfur geta SA ekki fallist enda er ljóst að slíkar hækkanir myndu ganga yfir allan vinnumarkaðinn með þeim afleiðingum að verðbólga og stýrivextir myndu hækka mikið og þrýstingur verða á gengi krónunnar. Sviðsmyndagreining SA sýnir að ef laun yrðu hækkuð um 30% í þriggja ára samningi yrði uppsöfnuð verðbólga 27% og stýrivextir á bilinu 12-14%. Við þær aðstæður myndi gengi krónunnar falla umtalsvert.

SA reiðubúin að skoða sérstaka hækkun lægstu launa
Til að það sé mögulegt þarf að ná sátt um að sú hækkun launa verði ekki fyrirmynd að almennum launahækkunum því það myndi valda mikilli verðbólgu. SA hafa jafnframt lagt til að farnar verði nýjar leiðir í kjarasamningum, dagvinnulaun verði hækkuð sérstaklega umfram almennar samningsbundnar hækkanir kjarasamninga en jafnframt verði samningsbundnar álagsgreiðslur lækkaðar. Uppstokkun launakerfa gæti orðið farvegur til að koma til móts við kröfur um betri framfærslumöguleika dagvinnulauna og styttri vinnutíma án þess að raska verðstöðugleika líkt og tíðkast í nágrannalöndum Ísland.

Sjá nánar:

Um verkföll – ný samantekt SA (PDF)