Hver eru helstu vandamál fyrirtækja?

Ýmsar hindranir eru á vegi atvinnulífsins þessa dagana sem koma í veg fyrir að fyrirtæki geti nýtt krafta sína til fulls. Ný könnun Samtaka atvinnulífsins meðal félagsmanna SA leiðir t.a.m. í ljós að stærstur hluti stjórnenda fyrirtækjanna telur litla fjárfestingu meðal helstu vandamála í rekstrinum um þessar mundir ásamt lítilli eftirspurn eftir vörum og þjónustu á fyrirtækjamarkaði. Þá telur álíka stór hópur háa skatta íþyngja rekstrinum.

Umtalsverður hópur fyrirtækja segir fjárhagsstöðuna erfiða og hár fjármagnskostnaður geri þeim erfitt fyrir ásamt viðskiptum við fjármálafyrirtæki. Þar á eftir nefna stjórnendur óvissu, óstöðugleika og veik starfsskilyrði fyrirtækja. Þá spila erfiðleikar á neytendamarkaði einnig stórt hlutverk í rekstrinum þessa dagana ásamt síhækkandi kostnaði.

Önnur vandamál sem stjórnendur nefna er að erfitt sé að fá hæft starfsfólk í vinnu, gjaldmiðillinn og gengisþróun er öðrum hugleikin, ásamt gjaldeyrishöftunum, ríkisstjórninni og erfiðleikum á erlendum mörkuðum. Fleiri svara því nú en áður að erfiðlega gangi að fá greitt fyrir vörur og þjónustu. Þau fyrirtæki eru til sem segja engin vandamál vera til staðar.

Það er því ljóst að mörg ljón eru í veginum og verkefnin fjölmörg sem þarf að leysa með samstarfi stjórnvalda og atvinnulífs til að hægt sé að sækja hér fram á næstu árum, bæta lífskjör og minnka atvinnuleysi.

Helstu vandamál fyrirtækja skv. Outcome-könnun fyrir SA:

 • Vandamál vegna lítilla fjárfestinga og lítillar eftirspurnar fyrirtækja

 • Skattamál

 • Fjárhagsstaða/fjármagnskostnaður/viðskipti við fjármálafyrirtæki

 • Óvissa/óstöðugleiki/veik starfsskilyrði fyrirtækja

 • Erfiðleikar á neytendamarkaði

 • Vantar rétta fólkið í vinnu

 • Hátt verð á aðföngum/kostnaðarhækkanir

 • Engin vandamál

 • Krónan/gengismál

 • Launakostnaður

 • Gjaldeyrishöft

 • Ríkisstjórnin

 • Stjórnsýsla/regluverk/eftirlitsiðnaður

 • Erfiðleikar á erlendum mörkuðum

 • Erfitt að fá greitt

Könnun SA fór fram dagana 9.-16. október 2012. Svör bárust frá 516 fyrirtækjum þar sem starfa um 35.000 starfsmenn. Framkvæmd könnunarinnar var í höndum Outcome og er hún hluti af reglulegum könnunum Samtaka atvinnulífsins meðal félagsmanna SA.