Hvenær eru störf jafn verðmæt og sambærileg?

Dómur Hæstaréttar frá 20. janúar 2005 í máli Akureyrar-bæjar gefur ekki einhlítt svar við spurningunni um hvenær störf séu jafn verðmæt og sambærileg og byggir hann á sömu forsendum og í fyrra jafnlaunamáli frá árinu 2000. Í báðum þessum málum er starfsmat lagt til grundvallar. Það ræður mati á verðmæti þeirra starfa sem borin eru saman. Matið á hvort störfin séu sambærileg vekur á hinn bóginn spurningar.

Samanburður á störfum

Í málinu eru borin saman störf deildarstjóra ráðgjafardeildar félagsmálastofnunar annars vegar og starf deildartækni-fræðings hins vegar. Bæði þessi störf höfðu verið metin jafn verðmæt í starfsmati.  Konan sem gegndi starfi deildarstjóra ráðgjafardeildar krafðist sömu kjara og deildartækni-fræðingurinn með vísan til jafnréttislaga.

Heildstætt mat

Fram kemur í dómi Hæstaréttar að úrlausn þess, hvort störf teljist jafn verðmæt og sambærileg í skilningi jafnréttislaga, verði að byggjast á heildstæðu mati og geti þannig verið um lík störf að ræða, þótt einstaka þættir þeirra kunni að vera ólíkir.  Markmið jafnréttislaga um sömu launakjör kvenna og karla fyrir jafn verðmæt og sambærileg störf náist ekki, ef launajöfnuðurinn eigi einungis að ná til fólks innan sömu starfsstéttar.

Taldi dómurinn að starfsmatið ætti að gefa allskýrar vísbendingar. Þá hafi starfslýsingar beggja starfa verið bornar saman og komist að þeirri niðurstöðu að störfin hafi almennt séð verið sambærileg þótt þau væru á mismunandi sviðum. Bærinn hafi ekki hrakið það mat. Niðurstaða dómsins var að konan hefði leitt verulegar líkur að því, að starf hennar og deildartæknifræðings hafi verið svo sambærileg að inntaki og ytri búnaði, að henni hafi verið mismunað í kjörum í skilningi ákvæða jafnréttislaga.

Möguleg réttlæting á launamun

Tekið er fram í dóminum að það sé því bæjarins að sýna fram á, að þessi mismunur í kjörum sé ekki vegna kynferðis. Taldi dómurinn að bærinn hefði ekki fært haldbær rök fyrir  því, að markaðssjónarmið hafi átt að leiða til svo mismunandi kjara þegar litið væri til stöðu þessara starfa í stjórnkerfi bæjarins. Bent er á að enginn heildarsamanburður liggur fyrir í málinu á inntaki starfa og launakjörum þeirra deildarstjóra sem voru hliðsettir konunni á félagssviði. Taldi dómurinn að bænum hafi ekki tekist að sanna, að hlutlægar og málefnalegar ástæður hafi ráðið kjaramuninum.  Mismunandi kjarasamningar geti ekki einir sér réttlætt mismun starfskjara kvenna og karla í skilningi jafnréttislaga.

 

Afstaða minnihluta dómenda

Dómurinn var ekki einhuga um sönnunarmatið. Í sératkvæði tveggja dómara er athyglisverð umfjöllun. Vísað er til þess að samkvæmt jafnréttislögum beri konunni að sanna að umrædd störf séu bæði jafn verðmæt og sambærileg. Um það vísi hún til starfsmatsins. Í matinu sé engin afstaða tekin til þess hvort viðmiðunarstörfin séu sambærileg, enda þótt þau hafi verið talin jafn verðmæt. Störf deildarstjóra ráðgjafadeildar og starf deildartæknifræðings séu ólík störf og unnin við mjög ólíkar aðstæður og ekki hliðsett í skipuriti bæjarins. Í starfsmatinu hafi ekki verið lagt mat á það hvort störf þessi væru sambærileg og enginn slíkur samanburður hafi farið fram á þessum störfum í málinu. Konunni þótti því ekki hafa tekist að sýna nægilega fram á að störfin hafi verið sambærileg í skilningi jafnréttislaga.

Hver er niðurstaðan?

Spurningin sem eftir stendur er því hvaða mælikvarða á að leggja á það hvort störf geti talist sambærileg. Dómurinn svarar því ekki svo einhlítt sé. Sönnunarfærslan hefur líka afgerandi áhrif á niðurstöðuna. Hæpið er því að draga of víðtækar ályktanir um þýðingu þessa dóms.