Hvar liggja tækifærin í íslensku atvinnulífi?

Háskólinn á Bifröst efnir til hádegisverðarfundar í Iðnó fimmtudaginn 19. nóvember frá kl. 12 til 13:30 þar sem leitast verður við að greina þau tækifæri sem kunna að felast í íslensku atvinnulífi um þessar mundir. "Þrátt fyrir margvíslega erfiðleika í íslensku efnahagslífi hafa mörg fyrirtæki náð eftirtektarverðum árangri að undanförnu. Alþjóðleg frumkvöðlaverðlaun Cartier féllu í ár í skaut íslensku fyrirtæki, Auði Capital, og CCP leitar eftir á annað hundrað manns til starfa hjá fyrirtækinu. Hvað veldur því að sum fyrirtæki blómstra í kreppunni þrátt fyrir vonlausar ytri aðstæður? Er kreppan tækifæri fyrir menntunar- og menningargeirann eða frumkvöðlastarf?," segir í tilkynningu frá Háskólanum á Bifröst.

 Á fundinum verður fjallað um þær áskoranir sem íslenskt samfélag; fyrirtæki, menningarlíf og menntastofnanir standa frammi fyrir í efnahagskreppunni.


Ávörp flytja þau Hilmar Veigar Pétursson, forstjóri CCP, Guðbjörg Edda Eggertsdóttir, aðstoðarforstjóri Actavis, Ágúst Einarsson, rektor Háskólans á Bifröst og Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar. Fundarstjóri verður Bryndís Hlöðversdóttir aðstoðarrektor sem einnig flytur ávarp.


Að loknum erindum verða umræður með þátttöku framsögumanna á pallborði. Léttur hádegisverður. Aðgangseyrir 1.200 kr. greiðist við innganginn.

Hægt verður að horfa á beina útsending hér.