Hús atvinnulífsins rís við Borgartún

Samtök atvinnulífsins og aðildarfélög þeirra flytja saman í nýtt húsnæði við Borgartún 35 vorið 2002. Flutningurinn er liður í þeirri þróun til einföldunar og hagræðingar í félagakerfi atvinnulífsins sem hófst með stofnun SA í september 1999.

Meginmarkmið þeirra skipulagsbreytinga voru að ná fram öflugri málsvara atvinnulífsins alls og bættri þjónustu við aðildarfyrirtækin í krafti aukins samstarfs og sérhæfingar, einfaldara skipulags og þeirrar auknu hagvæmni sem samstarfinu fylgir. Sameiginlegt húsnæði á besta stað í borginni gegnir lykilhlutverki í þessu sambandi.

Stærð nýja hússins verður alls 3.521 fermetri á fimm hæðum auk kjallara og þakhæðar. Samtals munu SA og aðildarfélög þess nýta um 2.200 fermetra undir starfsemi sína, hvar af um 330 fermetrar verða sameign á 1. hæð og í kjallara. Aðrir hlutar hússins verða leigðir út til annarrar starfsemi, þ.á m. öll 1. hæðin utan sameignar. Fyrir flutninginn nemur húsnæði SA og aðildarfélaga þess samtals ríflega 3.000 fermetrum, að meðtöldu húsnæði Vinnumálasambandsins, en við stofnun SA var starfsemi þess og VSÍ sameinuð þar sem áður var húsnæði VSÍ við Garðastræti.

 

SA munu kaupa fimmtu hæðina eða 555,1 fermetra, auk 105,5 fermetra hlutdeildar í sameign á 1. hæð og í kjallara. Núverandi húsnæði SA í Garðastræti 41 er um 1000 fermetrar að stærð. Samtök banka og verðbréfafyrirtækja munu leigja aðstöðu af SA á 5. hæð, en þau eiga aðild að Samtökum fjármálafyrirtækja (SFF) sem aftur eru aðildarfélag SA. Skrifstofur Samtaka iðnaðarins (SI) verða á 4. hæð, á 3. hæðinni skrifstofur Landssambands íslenskra útvegsmanna (LÍÚ), Samtaka fiskvinnslustöðva (SF) og Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF), og SVÞ-Samtök verslunar og þjónustu og Samtök atvinnurekenda í raf- og tölvuiðnaði (SART) verða á hluta 2. hæðar, en annar hluti hennar verður leigður út til annarrar starfsemi. Vinnudeilusjóður SA kaupir þá hluta fasteignarinnar sem SA og aðildarfélög kaupa ekki og ætlaður er til útleigu. Hefur vinnudeilusjóður m.a. stofnað sérstakt hlutafélag af því tilefni. Gert er ráð fyrir að veitingasalur verði á inndreginni þakhæð, sem er 6. hæð hússins.

Húsið er keypt tilbúið af Herði Jónssyni byggingaverktaka og Guðni Pálsson arkitekt hannaði húsið. Afhending er ráðgerð fyrir 1. apríl 2002. Fyrstu skóflustunguna að húsinu tók Hildur Guðmundsdóttir þann 21. febrúar 2001. Hildur er ekkja Ólafs B. Ólafssonar, fyrrverandi formanns Vinnuveitendasambands Íslands, en Ólafur var formaður undirbúningshóps að stofnun SA.