Hugvitið er ótakmarkað

Atvinnuleysi náði sögulegu hámarki þegar það fór í 17,8% í apríl. Nú, þegar við höfum náð tökum á veirunni, og farið hefur verið í bráðaaðgerðir til að standa vörð um störf, er nauðsynlegt að horfa langt fram á veginn og huga að því hvernig við getum skapað sem flest störf til framtíðar.

Menntun mun spila þar lykilhlutverk. Það er t.d. ekki boðlegt til lengdar að við séum með einn dýrasta grunnskóla í heimi en séum samt að mælast undir meðaltali OECD hvað varðar árangur grunnskólakerfisins. Góður grunnur skiptir miklu máli. Ef við skoðum hvaða færni atvinnurekendur kalla eftir og berum okkur saman við önnur Evrópulönd, þá er ljóst að við þurfum að hlúa mun betur að iðn- og verknámi, vísindum, tækni, verkfræði og stærðfræði.

Vegna þeirra tæknibreytinga sem eru að eiga sér stað þá eru störf að hverfa og ný að skapast. Vandinn er að fólkið sem sinnir störfunum sem eru að hverfa, hefur ekki endilega þá færni sem þarf á að halda til að sinna nýju störfunum. Þar mun fyrst og fremst reyna á stafræna færni. Það fólk hefur þegar lokið formlegri skólagöngu sinni þannig að framhaldsfræðsla mun gegna lykilhlutverki í að hjálpa því að öðlast nauðsynlega færni.

Sumum af stærstu atvinnugreinum okkar eru sett ákveðin takmörk af náttúrunnar hendi. Hugvitið á sér hins vegar engin takmörk. Ef við náum að virkja það betur með menntun og nýsköpun, þá þarf ekki að hafa áhyggjur af því að atvinnuleysi verði hér vandamál til framtíðar.

Davíð Þorláksson er forstöðumaður samkeppnishæfnisviðs Samtaka atvinnulífsins. Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu, þann 15. júlí.