11. apríl 2022

Hugvitið virkjað á Tene

Anna Hrefna Ingimundardóttir

1 MIN

Hugvitið virkjað á Tene

Vikulega fara nú um sjö flug frá Keflavíkur til Tenerife. Þó að ferðalagið sé langt er fjöldinn sem leggur það á sig slíkur að Tenebúar eru farnir að bera kennsl á íslenskuna.

Það skyldi engan undra að við finnum til skyldleika við eyjaskeggja á Tene. Báðar þjóðir búa á afskekktum eldfjallaeyjum í miðju Atlantshafi sem mynduðust í eldgosum fyrir tæplega 20 milljón árum. Þó að um 4.000 kílómetrar skilji okkur að erum við meira að segja á sama tímabelti, að minnsta kosti hálft árið.

Þegar best lætur nær fjöldi ferðamanna fimmföldum íbúafjölda á hvorri eyju um sig. Túrismi er því burðarás í báðum hagkerfum en einnig eru landbúnaður og sjávarútvegur mikilvægar atvinnugreinar. Á Kanarí má til að mynda finna næstmikilvægustu fiskimið Spánar.

Tene hefur fært mörgum Íslendingnum kærkomið frí frá íslenskum vetri en hvernig getum við endurgoldið frændum okkar í suðri, fyrir utan það að bjóða þeim upp á norðurljósaferðir á móti?

Orkuframleiðsla á Kanaríeyjum byggir aðallega á olíu en einnig vind og sólarorku. Athuganir hafa hins vegar sýnt að Tenerife er það svæði á Spáni sem býr yfir hvað mestum möguleikum til að beisla jarðvarma og nýta til framleiðslu raforku. Það tækifæri hefur enn ekki verið nýtt.

Við gætum miðlað af sérfræðiþekkingu okkar og hjálpað Tenebúum að nýta þá möguleika sem eldfjallaeyjan í suðri býður upp á til framleiðslu endurnýjanlegrar og sjálfbærrar orku. Við gætum einnig miðlað af þekkingu okkar þegar kemur að skynsamlegri nýtingu fiskimiða. Ekki þyrfti að byggja loftbrú til að ferja sérfræðingana yfir – hún er þegar til staðar.

Costa Islandia, landspilda við sjóinn á suðurhluta eyjunnar sem notuð væri til að efla lýðheilsu íslensku þjóðarinnar, væri sanngjarnt og eðlilegt gjald fyrir svo verðmæta ráðgjafaþjónustu. Sannkallað win-win.

Greinin birtist fyrst sem endahnútur í Viðskiptablaðinu, 7. apríl 2022

Anna Hrefna Ingimundardóttir

Aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins