Hugur SA til aðildarviðræðna við ESB kannaður

Skoðanakönnun sem nú stendur yfir meðal aðildarfyrirtækja Samtaka atvinnulífsins um Evrópumál er fyrst og fremst gerð til að kanna hvort stuðningur er fyrir því að SA beiti sér fyrir aðildarviðræðum við Evrópusambandið, að sögn Þórs Sigfússonar, formanns SA. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag. Meirihluti sé fyrir því innan SA að breyta afstöðu samtakanna til Evrópumála, að minnsta kosti til þess að hefja undirbúning aðildarviðræðna.

Þór segir að það liggi fyrir að stærstu aðildarfélög SA, þ.e. Samtök iðnaðarins og Samtök verslunar og þjónustu, séu þessarar skoðunar. Framkvæmdastjórn SA hafi því ákveðið að undirbúa málið frekar með skoðanakönnun innan SA.

"Við erum fyrst og fremst að leita eftir því hvort félagsmenn hafi áhuga á að SA beiti sér fyrir málinu. Það er alls ekki verið að óska eftir umboði til að gera hvað sem er með ESB heldur fyrst og fremst að fara í aðildarviðræður. Sjá í hvaða stöðu við erum og hvaða möguleika við höfum til að ná sem hagstæðustum samningum, ekki síst hvað varðar sjávarútveginn. Það verður auðvitað stóra málið að reyna að ná sem hagstæðastri niðurstöðu fyrir íslenskan sjávarútveg," segir Þór í Morgunblaðinu. Auðvitað skipti öllu hvað komi út úr mögulegum aðildarviðræðum við ESB. Þjóðin taki svo afstöðu til aðildarsamnings með þjóðaratkvæði eða öðrum hætti.

Landssamband íslenskra útvegsmanna (LÍÚ) hefur lýst því yfir að LÍÚ muni segja sig úr Samtökum atvinnulífsins verði SA beitt fyrir inngöngu Íslands í ESB. Þór segir að það yrði missir ef LÍÚ gangi úr SA.