Hugarfarsbreyting nauðsynleg við gerð fjárlaga

Fjárlög ríkisins eru nú til umfjöllunar á Alþingi en ljóst er að of mikill tími fjárlaganefndar fer í smámál og ekki er lögð nægilega rík áhersla á heildarmyndina og langtímastefnumörkun. Þetta kom skýrt fram á ráðstefnu um opinber fjármál sem fór nýrverið fram en að henni stóðu SA, Félag forstöðumanna ríkisstofnana og fjármálaráðuneytið. Kallað var eftir auknum aga við gerð og framkvæmd fjárlaga. Tveir fyrrverandi formenn fjárlaganefndar sögðu raunar þörf á hugarfarsbreytingu en bent var á að allt að þriðjungur stofnana keyri fram úr fjárheimildum.

Ráðstefnan fór fram þann 17. nóvember undir yfirskriftinni Er að marka fjárlög? Í umræðum tóku m.a. þátt Magnús Stefánsson og Gunnar Svavarsson, fyrrverandi formenn fjárlaganefndar Alþingis, Ólafur Hjálmarsson, hagstofustjóri og fyrrverandi skrifstofustjóri fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins, Hermann Guðmundsson, forstjóri N1, og Sigrún Traustadóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs hjá Flugstoðum.

Umræður um opinber fjármál

Magnús Stefánsson sagði ljóst að auka þurfi eftirlit með framkvæmd fjárlaga og fjárlaganefnd þurfi að taka virkan þátt í því eftirliti. Stilla þurfi fjárlögin af að vori ef vel eigi að vera. Gunnar Svavarsson sagðist telja að framkvæmd fjárlaga myndi batna ef landið yrði eitt kjördæmi en nauðsynlegt væri að gera Ríkisendurskoðun sjálfstæðari og efla eftirlitshlutverk hennar. Hugarfarið við fjárlagagerðina væri vandamál og einnig að ráðherrar gegni jafnframt þingmennsku. Það flæki málin þar sem þeir sitji beggja vegna borðsins.

Ólafur Hjálmarsson sagði það sína skoðun að kjördæmaskipanin væri til trafala og allt of miklum tíma í fjárlagavinnunni væri eytt í kjördæmamál. Sveigjanleiki í framkvæmd fjárlaga væri mikilvægur og hvatar til að ná árangri í rekstri sömuleiðis.

Hermann Guðmundsson sagðist telja útilokað að gera áætlun í fjármálum ríkisins til 18 mánaða sem stæðist. Því sé mikilvægt að fyrir hendi sé viðbúnaður til þess að mæta frávikum. Langtímahugsun sé eina leiðin til þess að ná sparnaði en hann velti því upp hvort hvatar til sparnaðar séu til staðar í kerfinu, hvort stofnunum sé umbunað eða refsað fyrir að spara? Hermann sagði vanta virka stýringu ríkisins á greiðslu dráttarvaxta.

Sigrún Traustadóttir sagði nauðsynlegt að móta ramma til lengri tíma en þrjú atriði einkenni fjárlagavinnuna. Erfitt sé fyrir stofnanir að fá kostnað viðurkenndan. Stjórnvöld séu treg til þess að taka ákvarðanir um að skera niður, leggja niður starfsemi eða hætta að veita þjónustu og auknar tekjur vegna þjónustugjalda leiði gjarnan til þess að fjárveitingar séu skornar niður.

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, benti á í umræðunum að áætlanagerð stofnana hafi verið til lítils gagns vegna þess hversu seint hún hafi verið á ferðinni. Taka þurfi upp langtímastefnumótun með árlegri aðlögun. Best væri að stofnanir skili inn áætlunum fyrir næsta ár fyrir lok nóvember. Þá væri hægt að fara yfir hvaða ákvarðanir sé verið að taka, hvort þær byggist á óskhyggju eða hvort um þær hafi verið fjallað.  Áætlanagerð þurfi að vera markvissari. Varðandi dráttarvexti sagði Vilhjálmur að það megi hugsa sér að fyrirtæki geti dregið þá frá skatti, t.d. virðisaukaskatti. Þá myndi fjármálaráðuneytið örugglega bregðast fyrr við. Í stað fjáraukalaga þurfi síðan að byggja upp varasjóði til þess að mæta launahækkunum og gengislækkunum. Þá benti Vilhjálmur á að fjárlaganefnd eyði 90% af tíma sínum í 10% verkefna og því þurfi að breyta.

Sjá nánar:

Frekari umfjöllun um ráðstefnuna á vef SA