Hörður Sigurgestsson – kveðja frá SA

Hörður Sigurgestsson var um áratugaskeið helsti forystumaður íslensks viðskiptalífs. Hann beitti sér jafnframt fyrir því að efla Vinnuveitendasamband Íslands, forvera Samtaka atvinnulífsins, með það að markmiði að bæta rekstrarumhverfi atvinnulífsins og þar með hag allra landsmanna.

Hörður sat í framkvæmdastjórn og samningaráði Vinnuveitendasambands Íslands frá 1983 til 1988, sem oft og tíðum kostaði tíðar fundarsetur og langar. Vönduð og skipuleg vinnubrögð einkenndu störf Harðar. Ekki var heiglum hent að vera í forsvari stórra fyrirtækja og jafnframt í fararbroddi samtaka atvinnurekenda á þessum árum þegar verðbólga sveiflaðist á bilinu 25-80% á ári og víxlverkun launa og verðlags var allsráðandi. Þjóðarsáttin 1990 markaði fullkomin tímamót í efnahagssögu landsins og þá skipti miklu máli að staðfastir menn á borð við Hörð, með skýra framtíðarsýn, væru í forystusveit atvinnulífsins.

Hörður tók þátt í mótun nýrra vinnubragða og ásýndar VSÍ í samskiptum við stjórnvöld, fjölmiðla og almenning. Það starf skilaði miklum árangri og jók um leið almennan skilning á mikilvægi góðra starfsskilyrða fyrirtækja og hagkvæms reksturs fyrir hag allra landsmanna og þjóðabúsins í heild.

Þegar Hörður Sigurgestsson tók við starfi forstjóra Eimskipafélags Íslands hf., fyrir réttum 40 árum, markaði það kynslóðaskipti og um leið innleiðingu nýrra vinnubragða við stjórnun stærri fyrirtækja hér á landi. Hörður var formfastur og leið öflugur frumkvöðull sem leiddi Eimskip og viðskiptalífið á nokkrum árum í gegnum umbyltingu í stjórnarháttum.

Með Herði Sigurgestssyni er genginn einn merkasti stjórnandinn í atvinnulífinu á síðari hluta tuttugustu aldar.

Að leiðarlokum þökkum við, fyrir hönd Samtaka atvinnulífsins, Herði fyrir umfangsmikil og heilladrjúg störf í þágu SA og forvera þeirra. Á kveðjustund sendum við fjölskyldu hans innilegar samúðarkveðjur. Blessuð sé minning Harðar Sigurgestssonar. 

Eyjólfur Árni Rafnsson.
Halldór Benjamín Þorbergsson.