Höldum áfram - sköpum tækifæri og störf

Höldum áfram er yfirskrift fjölbreyttra tillagna Samtaka atvinnulífsins sem allar miða að því að koma fólki og fyrirtækjum landsins í gegnum kreppuna. Á vefsíðunni holdumafram.is sem nú er komin í loftið má finna tillögur fyrir efnahagslífið í sex flokkum, viðtöl við atvinnurekendur úti í feltinu, fróðlega tölfræði upp úr könnunum sem samtökin hafa gert í gegnum heimsfaraldurinn og svokallaða velferðarreiknivél. Þar er sýnt fram á í tölum hvað starfsfólk og fyrirtæki þeirra leggja til samfélagsins í formi skattgreiðslna.

Tillögurnar sem finna má á vefsíðunni snúa að opinberum rekstri, skattastefnu, regluverki, grænni viðspyrnu, vinnumarkaðnum og menntamálum.

Þar að auki má finna viðtöl við veitingamenn, starfsfólk í ferðaþjónustu, iðnaði, sjávarútvegi, orkuiðnaði, nýsköpun og verslun sem öll greina frá sínum hugmyndum um hvernig megi komast upp úr skaflinum, í sameiningu.

Höldum áfram.