Hnattvæðing: tækifæri og ógnanir

Áskoranir og tækifæri samfara hnattvæðingu voru umfjöllunarefni Quentins Peel, ritstjóra alþjóðamála hjá Financial Times, í erindi á aðalfundi Samtaka atvinnulífsins. Peel fjallaði stuttlega um þann ótrúlega hagvöxt sem verið hefur á Íslandi undanfarinn áratug, sem hann taldi m.a. mega rekja til aðildarinnar að Evrópska efnahagssvæðinu og þess aukna frjálsræðis sem aðildinni fylgdi. Hann sagði þá neikvæðu umræðu sem undanfarið hefði átt sér stað um íslenska hagkerfið, og áhrif þeirrar umræðu hér, vera dæmi um hvernig heimurinn hefur breyst. Einstök ríki gætu ekki lengur stjórnað hagkerfum sínum eins og áður fyrr, né heldur væri það valkostur að loka fyrir erlend áhrif.

Hnattvæðing ekki valkvæð heldur staðreynd

Peel lagði áherslu á það að svokölluð hnattvæðing væri ekki eitthvað sem hægt væri að velja eða hafna heldur væri hún staðreynd sem við einfaldlega yrðum að takast á við. Hún væri drifin áfram af kröftum á borð við gríðarlega öra tækniþróun, mikla fólksfjölgun í þróunarríkjum og gríðarlega aukningu í framleiðni, sem ekki síst mætti rekja til samspils hinna þáttanna tveggja. Aukin tækni og ódýrt vinnuafl væri lykillinn að þeim mikla hagvexti sem við hefðum séð í t.d. Asíu og Peel lagði áherslu á að þeir tekjulægstu þar högnuðust mest, a.m.k. færi þeim ört fækkandi hlutfallslega t.d. í Kína. Hins vegar lýsti Peel áhyggjum af því að sá mikli hagvöxtur sem víða hefði orðið samhliða hnattvæðingunni hefði þó ekki enn náð til ákveðinna svæða, svo sem Afríku og stórs hluta múslimaheimsins.

Áhyggjur af tilhneigingu til verndarstefnu

Peel sagði þessar hraðfara breytingar í heiminum vera áhyggjuefni í ýmsum skilningi.

  • Þannig sagði Peel þær víða valda óöryggi og þannig stuðla að vaxandi tilhneigingu til verndarstefnu. Hann rakti nýleg dæmi um hvernig fyrirtæki frá Mið-austurlöndum var meinað að taka yfir hafnarrekstur í Bandaríkjunum og sagði ýmsar vísbendingar um að Bandaríkin gætu jafnvel þróast í átt til einangrunarstefnu. Í sumum ríkjum ESB kæmi sama tilhneiging fram í ótta við t.d. stækkun sambandsins til austurs og opnun vinnumarkaðarins fyrir nýjum ESB-borgurum.

  • Þá hefði ævintýralegur hagvöxtur í Kína, Indlandi og víðar þau áhrif að stórauka eftirspurn eftir orku, nokkuð sem Íslendingar þyrftu kannski ekki að hafa jafn miklar áhyggjur af og margir aðrir sökum ríkulegra endurnýjanlegra orkulinda hérlendis.

  • Bætt samskiptatækni og greiðari samgöngur gætu gert hryðjuverkamönnum auðveldara að valda tjóni.

  • Mikil og hnattræn áhersla á mikinn hagvöxt gæti gengið nærri umhverfi okkar.

Sendum jákvæð skilaboð

Peel sagði stækkun ESB mjög jákvæða þróun, en kvartaði undan því að stjórnmálamenn væru ekki að flytja þau skilaboð. Þeir væru áhyggjufullir. Ótti við að missa störf til nýrra aðildarríkja ESB eða borgara þeirra væri t.d. landlæg í löndum á borð við Frakkland og Belgíu og franska ímyndin um "pólska pípulagningamanninn" sem tæki störf frá Frökkum væri dæmi um fáránlega umræðu þar sem skortur væri á pípulagningamönnum í Frakklandi og aðeins um tvö hundruð slíkir þar frá Póllandi. Peel sagði þennan ótta og þessa tilhneigingu til verndarstefnu koma til vegna skorts á hagvexti í umræddum ríkjum.

Peel sagði mikilvægt að senda réttu skilaboðin. Sannfæra þyrfti launafólk um kosti þess að vinnumarkaður sé bæði opinn og í þróun. Hvetja þyrfti til hreyfanleika á vinnumarkaði og byggja upp öflugt endurmenntunarkerfi þar sem störf flytjast til annarra landa. Peel sagði reynslu Bretlands og Írlands góða af frjálsum aðgangi nýrra ESB-borgara að vinnumarkaði sínum.

Áhugaverð ESB-umræða hérlendis

Þá fjallaði Peel stuttlega um umræðuna hér á landi um kosti og galla aðildar Íslands að ESB. Hann benti á að ESB-aðild hefði yfirleitt reynst litlum ríkjum vel og meiri sátt verið um hana þar en í stærri ríkjum. Þá væri það lærdómur fyrir Íslendinga upp af reynslunni uppá síðkastið að sjálfstæður gjaldmiðill væri engan veginn óhultur fyrir utanaðkomandi áhrifum. Peel kom loks aftur inn á þróun efnahagsmála hér og sagði enga hættu á að Ísland yrði "annað Taíland eða Indónesía" í efnahagssamdrætti enda um að ræða opið hagkerfi með skýru regluverki. Íslendingar yrðu hins vegar að gera ráð fyrir einhverju tímabili minni hagvaxtar en verið hefði og sagði Íslendinga eiga að vera vana því að sigla í ólgusjó.

Upptöku af erindi Peel má nálgast hér.