Hnattræn hugsun nauðsynleg í loftslagsmálum

Evrópusamtök atvinnulífsins, BUSINESSEUROPE, segja það grundvallaratriði að þjóðir heims taki höndum saman um viðbrögð við loftslagsbreytingum. Ákvarðanir leiðtoga Evrópusambandsins í orku- og loftslagsmálum séu mikilvægar en tryggja verði samkeppnishæfni Evrópu. Evrópusamtök atvinnulífsins telja því rétt að fram fari alþjóðlegar viðræður þar sem þjóðir heims taki á sig sambærilegar skuldbindingar og ríki ESB, en þau hafa sett sér að hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa í Evrópu verði 20% árið 2020. Sambærilegt hlutfall hér á landi er 72%.

Evrópusamtök atvinnulífsins segja markmið leiðtoga Evrópusambandsins mjög metnaðarfull, en þeir verði nú að svara því hvernig fara eigi að því að uppfylla þessi markmið án þess að samkeppnisstaða evrópsks atvinnulífs bíði skaða. Ernst-Antoine Selliére, forseti Evrópusamtaka atvinnulífsins, segir að fyrirtæki í Evrópu þurfi að fá skýr svör frá leiðtogum ESB. "Við styðjum aukna notkun endurnýjanlegra orkugjafa en á sama tíma verður að tryggja nægt framboð orku á samkeppnishæfu verði. Í þeim efnum verður að horfa til allra mögulegra orkugjafa, ekki síst kjarnorku."

Vefur BUSINESSEUROPE