Hljóð og mynd fer saman

Formaður VR staðhæfir reglulega að eitthvað sé ámælisvert við íslenska lífeyrissjóði. Fjölmiðlaathygli er tryggð með yfirbragð hagsmunavörslu fyrir litla manninn gegn bákninu. Í viðtali í Fréttablaðinu, 7. september, segir hann rekstrarkostnað lífeyrissjóðanna vera áhyggjuefni, ekki fari saman hljóð og mynd og að of margir séu á spena þessa kerfis.

Besti mælikvarðinn á það hvort rekstrarkostnaður (e. administrative costs) og fjárfestingaútgjöld (e. investment expenses, þ.e. þóknanir greiddar vörsluaðilum) séu eðlileg er samanburður við sambærilega lífeyrissjóði erlendis. Sem betur fer tekur OECD saman slík gögn. Í meðfylgjandi súluriti er samanburður gerður þessum tveimur kostnaðarþáttum í starfstengdum lífeyrissjóðum (occupational pension funds).

Samanburður OECD sýnir að kostnaður við rekstur og ávöxtun fjármuna starfstengdra lífeyrissjóða á Íslandi er með því lægsta sem gerist. Þegar tímabilið 2015-2019 er lagt til grundvallar kemur í ljós að rekstrarkostnaður á Íslandi nam 0,17% af heildareignum og fjárfestingarkostnaður 0,06%, eða samtals 0,23%. Til samanburðar var þessi samanlagði kostnaður 0,21% í Danmörku, 0,28% í Noregi og 0,50% í Finnlandi.

Rekstrarkostnaður sem hlutfall af eignum var 0,16% árið 2019 og var lægri en á tímabilinu 2016-2018 þegar hann nam 0,18-0,19% af eignum. Fjárfestingarkostnaður sem hlutfall af eignum hefur verið 0,04-0,05% árin 2016-2019 og lækkaði mikið frá tímabilinu 2010-2015 þegar hann nam 0,10-0,13%.

Staðreyndirnar eru því þær að íslenskir lífeyrissjóðir eru í fremstu röð hvað lágan kostnað við rekstur og fjárfestingar varðar og þróun undanfarinna ára hefur verið í átt til lækkunar kostnaðar í hlutfalli við eignir.

Við eigum að vera stolt af því sem vel er gert og hrósa þeim sem það eiga skilið. Stjórnir og forystumenn starfstengdu lífeyrissjóðanna hafa staðið frábærlega að ávöxtun eigna lífeyrissjóðanna, aðhaldi að kostnaði og þjónustu við sjóðfélaga undanfarin ár. Þeir eiga betra skilið en síendurteknar árásir, ekki síst frá aðilum innan verkalýðshreyfingarinnar.