Vinnumarkaður - 

30. apríl 2015

Helvítis stöðugleikinn

Kjarasamningar

Kjarasamningar

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Helvítis stöðugleikinn

Því hefur verið fleygt í opinberri umræðu upp á síðkastið að það sem Íslendingar þurfi síst á að halda um þessar mundir sé stöðugleiki. Hækka þurfi laun í landinu mikið á skömmum tíma svo búandi verði í landinu og allir hafi nóg að bíta og brenna.

Því hefur verið fleygt í opinberri umræðu upp á síðkastið að það sem Íslendingar þurfi síst á að halda um þessar mundir sé stöðugleiki. Hækka þurfi laun í landinu mikið á skömmum tíma svo búandi verði í landinu og allir hafi nóg að bíta og brenna.

Í gegnum tíðina hefur óstöðugleiki, sveiflur, kreppur, hrun, gengisfellingar og mikil verðbólga nánast verið viðvarandi í íslensku efnahagslífi. Það er því kannski ekkert skrýtið að loksins þegar langþráð jafnvægi í skamma stund næst skuli menn kalla á ný eftir óstöðugleikanum, eða hvað?

Þriggja mánaða matarútgjöld
Á síðasta ári jókst kaupmáttur launa um 5,8% á sama tíma og ársverðbólga var aðeins 0,8%. Þetta skilaði launafólki raunverulegum kjarabótum. Stöðugleikinn skilaði hjónum auknum kaupmætti sem samsvarar rúmlega þriggja mánaða matarútgjöldum. Það skiptir heimilin miklu máli að verðbólga haldist lág en þrír fjórðu skulda þeirra eru verðtryggð lán. Fyrir heimili með meðalskuldir reyndist ávinningur lækkunar verðbólgu um hálf milljón króna til viðbótar.

Á að tuttugufalda laun?
Það er hægt að halda áfram á sömu braut og halda verðlagi stöðugu og hækkað laun hægt og bítandi þannig að það skili raunverulegum ávinningi eða hverfa aftur til fortíðar. Á níunda áratugnum voru laun hækkuð um 40% á ári en árangurinn reyndist enginn. Laun voru tuttugufölduð en kaupmáttur jókst á tíu árum innan við 1%. Kröfur verkalýðsfélaga um tugprósenta launahækkanir, óðaverðbólgu og óstöðugleika eru kunnuglegar en áhrif þeirra yrðu nákvæmlega þau sömu og á níunda áratugnum. Því ættum við að fagna stöðugleikanum í stað þess að bölva honum.

Greining SA sýnir að ef laun hækkuðu um 30% á þremur árum yrði uppsöfnuð verðbólga 27% og stýrivextir myndu þrefaldast. Gengi krónunnar myndi falla umtalsvert. Heimili og fyrirtæki greiða aukalega 200 milljarða króna á ári vegna hárra vaxta og orðið löngu tímabært að lækka vexti í stað þess að hækka kostnaðinn. Það verður ekki gert nema hér ríki stöðugleiki. Íslendingar munu ekki njóta sambærilegra vaxta og Svíar og Danir ef hér ríkir ekki sambærilegur stöðugleiki í efnahagslífinu og þar.

Nýjar leiðir
Það verður að auka framleiðni á Íslandi. Hún eykst með því að framleiða snjallari vörur og veita verðmætari þjónustu sem getur staðið undir hærri launagreiðslum og styttri vinnutíma. Að því vilja Samtök atvinnulífsins vinna og hafa lagt til nýjar leiðir við gerð kjarasamninga. Dagvinnulaun hækki sérstaklega umfram almennar hækkanir kjarasamninga en jafnframt verði álagsgreiðslur lækkaðar. Uppstokkun launakerfa gæti orðið farvegur til að koma til móts við kröfur um betri framfærslumöguleika dagvinnulauna og styttri vinnutíma án þess að raska verðstöðugleika. Með stöðugleika geta lífskjör hér batnað jafnt og þétt en án hans verður seint norræn velferð á Íslandi.

Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri SA.

Greinin birtist í DV 30. apríl 2015

Samtök atvinnulífsins