Helle Johansen: Tími kominn til að horfa fram á veginn

"Rúmlega þrjú ár eru nú liðin frá því Ísland lenti í hringiðu hinnar alþjóðlegu fjármálakrísu í október 2008. Síðan hafa mörg fyrirtæki gengið í gegnum endurskipulagningu á rekstri sínum og þurft að segja upp starfsfólki. Nú er hins vegar tími til kominn að horfa fram á veginn og hefja endurreisn með því að byggja upp traust á ný. Global Compact (sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um samfélagsábyrgð) getur hjálpað fyrirtækjum á þeirri vegferð." Þetta segir Helle Johansen, forstöðumaður hjá UNDP í Kaupmannahöfn, í grein á vef SA.

Grein eftir Helle Johansen hjá UNDP í Kaupmannahöfn:

Hvernig geta íslensk fyrirtæki hagnast á því að skrifa undir Global Compact?

Helle Johansen"Sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um samfélagsábyrgð, Global Compact, er helsta framtak í heimi á sviði samfélagsábyrgðar fyrirtækja (e. Corporate Social Responsibility / CSR). Þann 25. október sl. efndu Samtök atvinnulífsins og UNDP í Kaupmannahöfn (skrifstofa Þróunaráætlunar Sameinuðu þjóðanna) til morgunverðarfundar og námskeiðs um samfélagsábyrgð og atvinnulífið í samstarfi við Íslandsstofu og Þekkingarsetur um samfélagsábyrgð fyrirtækja.

Yfir 50 þátttakendur úr atvinnulífinu, stjórnkerfinu og háskólasamfélaginu mættu til fundarins en yfirskrift hans var Samfélagsábyrgð og sóknarfæri en fjallað var um hvernig samfélagsábyrgð í rekstri geti opnað ný viðskiptatækifæri og aukið veltu fyrirtækja.

Hin mikla þátttaka á fundinum sýnir að íslensk fyrirtæki er opin fyrir því að taka aukinn þátt í umræðu um samfélagsábyrgð og kynna sér hvernig unnt er að skapa ný viðskiptatækifæri með því að gera samfélagsábyrgð sýnilega í rekstri og stefnumótun fyrirtækjanna.

Á fundinum kynnti skrifstofa Þróunaráætlunar Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn  10 grunngildi Global Compact og þær skuldbindingar sem fyrirtæki gangast undir með því að skrifa undir sáttmálann.  Einnig um hvaða hag fyrirtæki hafa af því að setja samfélagsábyrgð á oddinn, sérstaklega á tímum niðursveiflu í efnahagslífinu þegar reynir á stjórnendur fyrirtækja að skila jákvæðri afkomu. Þá fjallaði  Jacob Stockerbye stofnandi danska sjávarréttafyrirtækisins Butler's Choice um sjálbærni í fiskeldi og hvernig fyrirtækinu hafa opnast nýir markaðir með því að gera samfélagsábyrgð að mikilvægum þætti í viðskiptaáætlun þess. Einnig fjallaði Anna Björk Bjarnadóttir framkvæmdastjóri tæknisviðs Símans um sýn fyrirtækisins á samfélagsábyrgð fyrirtækja.  Anna er einnig stjórnarformaður Þekkingaseturs um samfélagsábyrgð fyrirtækja og sagði frá markmiðum með stofnun setursins og helstu áherslum í starfi þess en setrið verður starfrækt í nánu samstarfi við háskólasamfélagið.

Global Compact getur hjálpað fyrirtækjum að endurvinna traust
Rúmlega þrjú ár eru nú liðin frá því Ísland lenti í hringiðu hinnar alþjóðlegu fjármálakrísu í október 2008. Frá þeim tíma hafa mörg fyrirtæki gengið í gegnum endurskipulagningu á rekstri sínum og þurft að segja upp starfsfólki. Nú er hins vegar tími til kominn að horfa fram á veginn og hefja endurreisn með því að byggja upp traust á ný. Global Compact getur hjálpað fyrirtækjum á þeirri vegferð en samkvæmt könnun árið 2010 meðal þeirra sem höfðu þá skrifað undir sáttmálann  (meira en 1.000 svarendur um allan heim) þá var meginástæða þess að fyrirtækin skrifuðu undir sú að Global Compact  veitir þeim tækifæri til að bæta orðspor sitt.

Hvers vegna er samfélagsábyrgð mikilvæg fyrir íslensk fyrirtæki?        
Samfélagsábyrgð er mikilvæg öllum fyrirtækjum á Íslandi sem nýta náttúruauðlindir við starfsemi sína, starfa í fjármálastarfsemi eða framleiða vörur eða veita þjónustu á mörkuðum sem gera miklar kröfur á sviði umhverfismála og aðbúnaðar starfsfólks.

Sjávarútvegur og ferðaþjónusta eru tvær lykilgreina í íslensku efnahagslífi en fyrirtæki innan þeirra eru í auknum mæli að mæta kröfum viðskiptavina um sjálfbærni og ábyrga stjórnarhætti. Neytendur eru meðvitaðri en áður um vörur og þjónustu sem þeir kaupa og sífellt fleiri vilja fá skýringar á því hvernig framleiðslan á sér stað og hver grunngildi fyrirtækjanna eru. Innan beggja greina eru fyrirtæki á Íslandi sem hafa staðið sig vel í þessum efnum. Í sjávarútveginum má t.d. nefna að fyrirtæki hafa ákveðið að taka upp upprunamerki fyrir íslenskt sjávarfang (Iceland Responsible Fisheries). Tilgangur merkisins er að tryggja kaupendum og neytendum upplýsingar um að íslenskar sjávarafurðir eigi uppruna sinn í ábyrgum fiskveiðum Íslendinga.

Álframleiðsla og orkunýting eru einnig greinar þar sem mikilvægi málefna sem tengjast samfélagsábyrgð hafa aukist vegna umhverfisáhrifa fyrirtækja í þessum greinum. Margir koma þar að borðinu, t.d. sveitarfélög, eigendur, fjárfestar og frjáls félagasamtök.

Þá þurfa fjármálafyrirtækin að byggja upp traust eftir hrun fjármálakerfisins haustið 2008 og auka áherslu á góða stjórnarhætti og gagnsæi í starfsemi sinni.

Gagn af því að skrifa undir Global Compact

Fyrirtæki sem skrifa undir Global Compact hafa af því margvíslegan hag. Fyrirtæki sem hafa skrifað undir nefna sjálf eftirfarandi þætti:

Aðgangur að tengslaneti
Íslensk fyrirtæki sem skrifa undir Global Compact geta tekið þátt í norrænu tengslaneti þeirra sem hafa skrifað undir sáttmálann (Global Compact Nordic Network), en tvisvar á ári eru haldnir upplýsingafundir / ráðstefnur um samfélagsábyrgð fyrirtækja þar sem þátttakendur miðla af reynslu sinni og ræða málefni sem eru efst á baugi samfélagsábyrgðar. Þeir sem vilja kynna sér starfsemi norræna tengslanetsins geta haft samband við Hörð Vilberg hjá SA, í síma 591-0005 eða með tölvupósti á hordur@sa.is.

Þátttakendur geta jafnframt tekið þátt í starfi sambærilegra tengslaneta út um allan heim, t.d. fyrirtæki sem eru með dótturfyrirtæki í fjarlægum löndum.

Verkfæri til að vinna með samfélagsábyrgð
Global Compact hvetur fyrirtæki til að fást við málefni sem tengjast rekstrinum og gildum fyrirtækisins. Bestur árangur næst þegar viðmið Global Compact eru samtvinnuð viðskiptaáætlun fyrirtækisins.

Tengsl við Sameinuðu Þjóðirnar
Global Compact er hluti af starfsemi Sameinuðu þjóðanna og sjá mörg fyrirtæki sér hag í því að tengja vörur sínar og þjónustu starfsemi þeirra. Mörg fyrirtæki telja það mjög mikilvægt að geta notað merki Global Compact og tengingu við S.Þ. í markaðsstarfi sínu.

Global Compact byggir á almennum gildum
Sáttmáli S.Þ. um samfélagsábyrgð byggir á 10 almennum og alþjóðlega viðurkenndum gildum. Hann gagnast því vel í samskiptum aðila í ólíkum menningarheimum.

Gagnleg hjálpartæki
Global Compact gefur reglulega út rit og veftól af ýmsu tagi til að hjálpa fyrirtækjum að innleiða 10 gildi sáttmálans.

Skuldbinding vegna Global Compact:
Þegar fyrirtæki skrifa undir Global Compact er ætlast til þess að þau hafi eftirfarandi í heiðri:

Æðstu stjórnendur tileinki sér viðmið  Global Compact og vinni með þau í daglegu starfi. Einnig að upplýsa alla stafsmenn fyrirtækisins um nálgunina til að allir rói í sömu átt.

Viðmið Global Compact eiga að vera hluti af daglegri starfsemi og menningu þeirra fyrirtækja sem skrifa undir.

Fyrirtæki leggi sitt af mörkum til þróunarverkefna í víðum skilningi (þar á meðal Árþúsundamarkmiða S.Þ) t.d. með samstarfi heima fyrir eða á alþjóðlegum vettvangi.

Fyrirtæki geri grein fyrir því hvernig starfi þeirra að samfélagsábyrgð er háttað í ársskýrslu eða sjálfbærniskýrslu (e. Communication on Progress).

Fyrirtæki taki þátt í að kynna viðmið Global Compact og mikilvægi ábyrgra viðskipta í samskiptum við birgja, viðskiptavini og almenning.

Hlutverk skrifstofu UNDP í Kaupmannahöfn

Skrifstofa þróunaráætlunar Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn (UNDP) hefur það hlutverk að kynna Global Compact og fá fleiri fyrirtæki til að slást í hópinn. Skrifstofan hefur sinnt þessu hlutverki frá 2003 á Norðurlöndunum og á Íslandi sérstaklega frá árinu 2007. Á Íslandi vinnur UNDP með Samtökum atvinnulífsins, sem er tengiliður við Global Compact á Norðurlöndum, og utanríkisráðuneytinu sem hefur styrkt kynningarstarf vegna Global Compact á Íslandi.

Um Global Compact

Sameinuðu þjóðirnar hleyptu Global Compact af stokkunum árið 2000, en um er að ræða ákall til fyrirtækja heimsins um að laga rekstur sinn að 10 viðmiðum sáttmálans um samfélagsábyrgð og styðja helstu markmið S.Þ. Um er að ræða viðmið á sviði mannréttinda, vinnumarkaðsmála, umhverfismála og baráttu gegn hvers kyns spillingu. Með því að skrifa undir Global Compact og taka virkan þátt í starfi sem tengist samfélagsábyrgð geta fyrirtæki lagt sitt af mörkum til að þróa markaðshagkerfi heimsins í þá átt að það komi bæði efnahagslífinu til góða og samfélögum út um allan heim. Nú hafa um 6.200 fyrirtæki af öllum stærðum og gerðum skrifað undir, ásamt 2.500 aðilum úr háskólasamfélaginu, frjálsum félagasamtöku og sveitarfélögum í meira en 135 löndum. Það gerir Global Compact að öflugasta framtakinu á sviði samfélagsábyrgðar fyrirtækja í heiminum.

Helle Johansen, Head of Business Outreach, UNDP Nordic Office in Copenhagen, helle.johansen@undp.dk

Sjá nánar:

Vefur Global Compact: www.globalcompact.org

Norrænt tengslanet Global Compact: www.gcnordic.net

Viðmið Global Compact á íslensku

Tengt efni:

Glærukynning Helle Johansen frá opnum fundi  25. október

Glærukynning Helle Johansen frá námskeiði 25. október

Glærukynning Önnu Bjarkar Bjarnadóttur á opnum fundi 25. október