Heimsmet í opinberum umsvifum

Gjöld í fjárlagafrumvarpi 2004 eru 8% hærri en í fjárlagafrumvarpi fyrir þetta ár og nemur aukningin 20 milljörðum króna. Breytingin milli fjárlagafrumvarpa er betri mælikvarði á aukningu ríkisútgjaldanna heldur en samanburður frumvarps við fjárlög eða áætlaða útkomu ársins. Frumvarpið mun taka breytingum í meðförum þingsins til hækkunar þar til fjárlög verða samþykkt. Síðan koma fjáraukalög og reynslan kennir að þegar upp er staðið hafa gjöldin farið langt umfram það sem upp hefur verið lagt með í fjárlagafrumvarpi.

Meira en tvöföld ætluð aukning samneysluútgjalda
Fyrir ári síðan var lagt fram fjárlagafrumvarp þar sem gert var ráð fyrir að samneyslan, þ.e. rekstrarútgjöld ríkis og sveitarfélaga, myndi aukast um 1% að magni til og um 2,8% í verði og þannig um 3,8% í krónum talið. Nú eru horfur á að aukningin verði 8,3% í krónum talið, þar af 3,5% magnaukning og 4,7% verðhækkun.

14% aukning til heilbrigðis- og tryggingaráðuneytis
Stærsta skýringin á stórauknum rekstrarumsvifum ríkisins að undanförnu liggur á sviði heilbrigðismála. Hækkunin til heilbrigðis- og tryggingaráðuneytisins frá síðasta fjárlagafrumvarpi til áætlaðrar útkomu ársins nemur tæpum sjö milljörðum króna. Í frumvarpi fyrir næsta ár á að auka framlög verulega til þessara málaflokka þannig að samanburður milli frumvarps fyrir þetta ár og næsta sýnir aukningu upp á 13,4 milljarða eða sem nemur 14%.

Heimsmet í hlut samneyslu
Samneysla sem hlutfall af landsframleiðslu er nú áætluð nema 26,4% af landsframleiðslu. Í fyrra var hlutfallið 25,5%. Þar með er Ísland komið efst á toppinn í alþjóðlegum samanburði hvað varðar hlutdeild opinbers rekstrar í þjóðarbúskapnum. Fyrri titilhafar í þessum samanburði hafa verið Svíar og Danir og nam hlutfallið 25,6% hjá Svíum á síðasta ári og 25,3% hjá Dönum.

Miklar launahækkanir hjá hinu opinbera
Meginskýringin á stöðugt hækkandi hlut samneyslunnar á Íslandi hafa verið miklar launahækkanir í opinbera geiranum. Nýjar tölur í fjárlagafrumvarpinu um þróun launagreiðslna ríkisins vekja nokkra undrun en þar kemur fram að launagreiðslurnar hafi aukist um tæp 15% milli 2001 og 2002 og að áætluð sé 5,5% aukning til viðbótar á þessu ári. Þetta gerist á miðju samningstímabili og við aðstæður samdráttar í efnahagslífinu árið 2002.

Trúverðugri markmið nú?
Í fjárlagafrumvarpinu fyrir 2004 er aftur gengið út frá 1% vexti samneyslu og 3% hækkun á verðlagi samneyslunnar. Í ljósi reynslunnar er eðlilegt að spurt sé hvort þessi markmið frumvarpsins séu á einhvern hátt raunhæfari en þau sem sett voru fyrir ári síðan og náðust alls ekki. Hefur vinnuaðferðum eða stjórnunarháttum verið breytt í ráðuneytunum að undanförnu sem gera það líklegra að markmiðin náist að þessu sinni? Svör forystumanna ríkisstjórnarinnar við þessum spurningum skipta sköpum varðandi trúverðugleika fjármálastefnu ríkisins gagnvart þeirri þenslu og verðbólguhættu sem framundan er. Krafa atvinnulífsins er að ríkisfjármálin verði sveiflujafnandi á komandi árum. Það munu þau ekki verða ef samneyslan heldur áfram að vaxa með sama hætti og á undanförnum árum.