Heimsmeistarar í höftum á erlenda fjárfestingu

Hvergi eru höft á erlenda fjárfestingu meiri en á Íslandi samkvæmt athugunum OECD - Efnahags framfarastofnunarinnar í París. Segja má að þjóðin sé ríkjandi heimsmeistari í þessum efnum og hefur raunar verið það meira eða minna um þriggja áratuga skeið. Það er ekki hægt að segja að íslensk stjórnvöld hafi á borði verið áfjáð í að laða hingað erlenda fjárfesta til að byggja upp starfsemi sína, hvað svo sem sagt hefur verið. Segja má að Ísland hafi setið hjá í hnattvæðingu undanfarinna áratuga.

Á myndinni hér að neðan kemur fram að af 49 ríkjum var Ísland það ríki sem lagði mestar hindranir í veg erlendrar fjárfestingar árið 2010. Ísland hefur haldið svipaðri stöðu síðustu áratugi án þess að verulega hafi verið hugað að því að gera umhverfi til fjárfestinga hér hagstæðara en verið hefur.

Smelltu til að stækka

Þetta er vondur stimpill fyrir land og þjóð og skaðleg staða. Þegar rýnt er í þær breytingar sem orðið hafa á undanförnum áratugum sést að flest ríki hafa opnað fyrir beina fjárfestingu erlendra aðila og afnumið hindranir jafnt og þétt. Hindranir hér eru margfaldar á við það sem gerist að jafnaði í OECD-ríkjunum. Hindranir á Norðurlöndum, að undanskildu Íslandi,  eru töluvert minni en að meðaltali hjá þeim ríkjum sem OECD birtir upplýsingar um.

Mat OECD á hindrunum er skipt í fjóra flokka. Í fyrsta lagi er metið hvort lagðar séu takmarkanir á eignarhald erlendra aðila í atvinnurekstri. Í öðru lagi er skoðað hvort fjárfestingar séu háðar einhvers konar mati og þurfi samþykki í hvert sinn. Í þriðja lagi er fjallað um hvort ráðningar lykilstarfsmanna erlendis frá séu háðar takmörkunum og hvort mismunað sé eftir þjóðerni. Að lokum er litið til annarra takmarkana, s.s. á kaup á landareign, aðgangs að lánsfé og hversu auðvelt sé að koma fjármagni til baka til upprunalands.

Einfalt er að bæta stöðu Íslands í þessum efnum.

Sjá nánar:

Umfjöllun um fjárfestingar í nýju riti SA: Rjúfum kyrrstöðuna (bls. 32-42)