Heimilin þola ekki skattahækkanir

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, kallar eftir stefnu þeirra sem hyggjast mynda nýja ríkisstjórn og varar eindregið við því að hækka tekjuskatt einstaklinga meira en orðið er. "Þá er verið að veita fjölmörgum fjölskyldum náðarhöggið sem eru að berjast við það að standa í skilum."

RÚV Sjónvarp og Stöð 2 leituðu viðbragða SA við stjórnarslitum Sjálfstæðisflokks og Samfylkingarinnar í gær.

Vilhjálmur leggur á það áherslu  að atvinnulífinu verði búin eðlileg starfsskilyrði svo finna megi leið út úr erfiðleikunum. Nauðsynlegt sé að halda áfram samstarfi við Alþjóða gjaldeyrissjóðinn og hvetur Vilhjálmur til þess að réttar ákvarðanir verði teknar. "Ef við tökum rangar ákvarðanir getum við verið að hjakka hér í sama farinu og í afturför næsta áratuginn."

Þór Sigfússon, formaður SA, segir það áhyggjuefni að hér verði almennur haftabúskapur á næstu árum og vantrú á atvinnurekstri og einkaframtaki nái að grafa um sig. Hann er þess þó fullviss að Íslendingar séu það skynsamir að þeir verði fráhverfir þeirri hugsun sem fyrst.

Viðbrögð Vilhjálms Egilssonar í fréttum RÚV - Sjónvarps 26.01.

Viðbrögð Vilhjálms, Þórs Sigfússonar, formanns SA og fleiri á Stöð 2 26.01.