Heilbrigður fjármálageiri eflir atvinnulífið

Kristín Pétursdóttir, forstjóri Auðar Capital, flutti ávarp á aðalfundi SA 2013 og fjallaði um mikilvægi fjármálageirans á Íslandi. Hún sagði miðlun fjármuna til fólks og fyrirtækja súrefni atvinnulífsins og undirstöðu velferðar. Nauðsynlegt væri að hér sé heilbrigður og sterkur fjármálageiri sem geti stutt við uppbyggingu öflugs atvinnulífs. Kristín fjallaði einnig um það sem betur má fara og neikvæða þróun á markaðnum. T.d. síauknar álögur og eftirlitskostnað sem hafi vaxið úr hófi á meðan geirinn hafi skroppið saman. Þetta auki fjármagnskostnað fyrirtækja og heimila.

Kristín Pétursdóttir á aðalfundi SA 2013

Þá sagði Kristín gjaldeyrishöftin skaðleg. Höftin dragi úr erlendri fjárfestingu og komi í veg fyrir að íslenskir aðilar geti fjárfest erlendis. Þetta hafi neikvæð áhrif á sköpun nýrra starfa. Verðmyndun fjármagns væri bjöguð og Íslandsáhætta lífeyrissjóða og annarra fjárfesta aukist stöðugt. Allir þessir þættir ásamt íslensku krónunni geri það að verkum að fjármagnskostnaður íslenskra fyrirtækja sé margfalt hærri en í nágrannalöndunum.

"Það er hagsmunamál alls atvinnulífsins að hér sé öflugur og hagkvæmur fjármálageiri. Það er ekki einkamál fjármálageirans sjálfs. Því er mikilvægt að geirinn sjálfur sem og stjórnvöld taki þessa ábyrgð alvarlega. Fjármálafyrirtækin verða að sýna fram á að þau geti starfað með ábyrgari hætti en áður. Á sama tíma verða stjórnvöld að varast ofurálögur á geirann."

Hægt er að horfa á erindi Kristínar hér að neðan og nálgast glærur hennar frá aðalfundi SA

SMELLTU HÉR TIL AÐ HORFA

SMELLTU HÉR TIL AÐ SÆKJA GLÆRUR