Efnahagsmál - 

06. nóvember 2003

Heilbrigð viðhorf

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Heilbrigð viðhorf

Í stjórnmálaályktun nýafstaðins landsfundar Samfylkingarinnar er fjallað um þann gríðarlega vanda sem við blasir í heilbrigðiskerfinu, vanda sem ekki verði rakinn til fjárskorts heldur til heilbrigðiskerfisins sjálfs. Sláandi dæmi um það er að finna í nýlegri blaðagrein Ástu Möller, varaþingmanns Sjálfstæðisflokksins, þar sem hún fjallar um hvernig spara mætti um 700 milljónir króna á því að veita 90 geðfötluðum einstaklingum búsetuúrræði sem hentaði þeim betur en núverandi sjúkrahúsvist. Í ályktun Samfylkingarinnar er meðal annars bent á að sé tekið tillit til aldursdreifingar þjóðanna ver Ísland mest allra OECD þjóða af opinberu fé til heilbrigðismála.

Í stjórnmálaályktun nýafstaðins landsfundar Samfylkingarinnar er fjallað um þann gríðarlega vanda sem við blasir í heilbrigðiskerfinu, vanda sem ekki verði rakinn til fjárskorts heldur til heilbrigðiskerfisins sjálfs. Sláandi dæmi um það er að finna í nýlegri blaðagrein Ástu Möller, varaþingmanns Sjálfstæðisflokksins, þar sem hún fjallar um hvernig spara mætti um 700 milljónir króna á því að veita 90 geðfötluðum einstaklingum búsetuúrræði sem hentaði þeim betur en núverandi sjúkrahúsvist. Í ályktun Samfylkingarinnar er meðal annars bent á að sé tekið tillit til aldursdreifingar þjóðanna ver Ísland mest allra OECD þjóða af opinberu fé til heilbrigðismála.

Þá segir í ályktun landsfundarins: "Samfylkingin vill beita sér fyrir framtíðarlausn í heilbrigðismálum þjóðarinnar þar sem nýjar leiðir og fjölbreyttari rekstrarform, svo sem þjónustusamningar og einkaframkvæmd, eru skoðuð, án þess að missa sjónar af þeirri stefnumörkun flokksins að allir hafi jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag. Samfylkingin hafnar einkavæðingu í velferðarkerfinu."

Ánægjuleg tíðindi
Þetta eru vissulega ánægjuleg tíðindi, en í nýlegri skýrslu Samtaka atvinnulífsins er einmitt fjallað um heilbrigðismálin á svipuðum nótum. Útgjaldaþensla heilbrigðiskerfisins er þvílík að leiðir til sparnaðar og hagræðingar í kerfinu hljóta að vera í brennidepli. Hægt er að nýta kosti samkeppni og einkarekstrar til lækkunar á kostnaði, án þess að hlutdeild hins opinbera í kostnaði við hvern sjúkling minnki, né heldur gæði þjónustunnar. Aukið vægi þjónustusamninga og greiðsla á grundvelli kostnaðargreiningar sjúkdómstilvika hefur skilað góðum árangri víða í nágrannalöndunum. Núverandi kerfi fastra fjárlaga með eilífum framúrkeyrslum og ósveigjanlegu stjórnunarumhverfi yrði hins vegar hvergi talið líklegt til framleiðniaukningar. Þvert á móti rammar það inn óhagkvæmni.

Viðbrögð ráðherra
Mörgum hafa þótt neikvæð þau viðbrögð heilbrigðis- og tryggingaráðherra að líkja hugmyndum Samfylkingarinnar við kanínu úr hatti. Þau verður hins vegar að skilja í ljósi pólitískra dægurátaka. Ráðherrann hefur sýnt í verki að þótt hann vilji fara varlega í breytingar og hugtakanotkun í sambandi við þær, þá er hann síður en svo ómóttækilegur fyrir nýjungum hvað varðar rekstrarform í heilbrigðisþjónustu. Þær ógöngur sem heilbrigðiskerfið hefur ratað í hafa verið að byggjast upp á löngum tíma og það er flókið viðfangsefni að vinda ofan af þeirri þróun.

Gríðarlegir hagsmunir í húfi
Ráðherrans er hins vegar tækifærið að leiða það brýna verkefni að láta fara fram gagngera endurskoðun á fjármögnunarleiðum og rekstrarformum heilbrigðisþjónustunnar, með jákvæða reynslu nágrannalandanna að leiðarljósi. Útspil Samfylkingarinnar verður vonandi innlegg í að skapa breiða pólitíska samstöðu um slíka endurskoðun. Gríðarlegir hagsmunir eru í húfi, hvað varðar hagkvæmni í rekstri, skattbyrði og þar með lífskjör þjóðarinnar.
 

Ari Edwald

Samtök atvinnulífsins