Heiðrún Jónsdóttir: Traustur hlutabréfamarkaður mikilvægur í uppbyggingunni

Heiðrún Jónsdóttir, framkvæmdastjóri lögfræðideildar Eimskips, telur mikilvægt að koma á fót öflugum, traustum, skilvirkum og fjölbreyttum hlutabréfamarkaði á Íslandi. Heiðrún segir ljóst í ljósi þess að fjárfestingar séu nú minni en þær hafa verið í 70 ár á Íslandi sé þörf á auknum fjárfestingum á öllum sviðum. Virkur hlutabréfamarkaður sé mikilvæg forsenda þess að fjárfestingar taki við sér en læra þurfi af fortíðinni og byggja upp traust á ný. Tímabært sé að horfa til framtíðar og láta verkin tala.


Þetta kom m.a. fram á opnum fundi SA um atvinnu- og efnahagsmál sl. föstudag þar sem kynnt var ný skýrsla SA, Rjúfum kyrrstöðuna. Leiðir til betri lífskjara.

Heiðrún Jónsdóttir

Erindi Heiðrúnar má lesa hér að neðan:


"Eins og fram kemur í skýrslu Samtaka atvinnulífsins þá eru fjárfestingar nú minni en þær hafa verið í 70 ár og minni en í flestum nágrannaríkjum. Aukinna fjárfestinga er þörf á öllum sviðum en til þess þarf góð starfsskilyrði, breytingar á sköttum, virkan hlutabréfamarkað og vilja stjórnvalda.

Einn mikilvægur þáttur í aukinni fjárfestingum er án nokkurs vafa traustur og góður hlutabréfamarkaður.

Ekki þarf að fjölyrða hér á þessum fundi um þær hremmingar sem hlutabréfamarkaðurinn hér á landi fór í gegnum í hruninu og hve hægt hefur gengur að koma honum í gott horf að nýju.

Við hrunið árið 2008 hefði ekki hvarflað að mér að 3 árum síðar værum við ekki komin lengra í uppbyggingu en nú er raunin. Vissulega hefur ýmislegt áunnist en ég held að ég sé ekki ein um þá skoðun að uppbyggingin gengur alltof hægt og tafir á uppbyggingu kosta okkur meir en margan grunar - svo ég tali nú ekki um sálarleg áhrif kyrrstöðunnar, og áhrif þess að horfa sífellt í baksýnisspegilinn í stað þess að horfa fram á við.

Með þessu á ég að sjálfsögðu ekki við að við eigum að gleyma fortíðinni, síður en svo við eigum og verðum að læra á henni en við getum ekki dvalið við hana lengur. Við verðum að bretta upp ermar, horfa fram á við og flýta uppbyggingu - og við þurfum alla vinnufæra menn og konur á árarnar.

Það er í mínum huga ekki eitthvað eitt sem veldur töfum á uppbyggingu heilbrigðs hlutabréfamarkaðs. Vissulega eru til fjármunir í landinu - sem betur fer erum við ekki svo illa stödd - það sem meira er að þeir fjármunir sem eru til hér á landi komast ekki einu sinni úr landi, þótt þeir trúlega gjarnan vildu - ástæðu þess þekkjum við. Of stór hluti af þessum fjármunum liggja þó kyrrir þar sem eigendur þeirra virðast ekki treysta sér enn til að fara í fjárfestingar af fullum þunga.

Það þarf að koma þessum fjármunum í umferð, til að skapa frekari verðmæti og koma hjólunum aftur af stað. En eigendur fjármagnsins hreyfa sig hægt ef þeir treysta ekki umhverfinu eða sjá ekki tækifærin í fjárfestingum. Hér skiptir sköpum að rekstarumhverfi fyrirtækja sé stöðugt og ekki undir því oki að ytri þættir eins og skattar taki miklum eða örum breytingum. Það eru gömul sannindi að skatttekjur aukast ekki endilega í samræmi við hækkun álaga, hætta er á að skattstofnar minnki og undanskot aukist. Þá er einnig ljóst að of háir skattar draga úr getu fyrirtækja til að ráðast í fjárfestingar og skapa ný störf.

Fjárfestingatækifæri eru hér einnig til staðar. Sem betur fer eru hér á landi mörg fyrirtæki sem eru vel í stakk búin til að fara á markað en seinlega hefur gengið að endurskipuleggja þau og koma þeim úr hreiðrinu. Nú er þó útlit fyrir að nokkur þeirra nái að fara á markað á næstu mánuðum og fái að reyna á flugfjaðrirnar.

Hlutabréfamarkaðnum bíður það verkefni að ávinna sér að nýju traust fjárfesta og ekki síður almennings. Miklu máli skiptir að ekki eingöngu fagfjárfestar líti a hlutabréfamarkaðinn sem álitlegan kost heldur einnig almenningur.

Í Viðskiptablaðinu í gær, 10. nóvember var birt könnun sem unnin var af MMR fyrir Viðskiptablaðið:  Niðurstaða þarf ekki að koma á óvart. Það er lítill áhugi á hlutabréfakaupum meðal almennings, aðeins 11% þátttakenda í könnuninni segja koma til greina að kaupa hlutabréf á næstu mánuðum. Aðeins stjórnendur og tekjuháir einstaklingar eru líklegir til að kaupa sér hlutabréf næsta árið.

Hér skiptir að mínu viti traustið mestu máli. Fjárfestar og almenningur þarf að upplifa að sá hlutabréfamarkaður sem nú er að byggjast upp sé traustsins verður og hafi lært af fortíðinni. Það getur tekið langan tíma að byggja upp traust, en það tekur skamman tíma að missa það niður.

Í því samhengi skiptir miklu máli að þau félög sem fara á markað séu verðmetin með eðlilegum hætti og ferlið gangi áfallalaust fyrir sig. Þá þarf að vera skýrt að verðmyndun á markaði sé á eðlilegum forsendum.

Innan bankanna ætti að vera  hvati að koma félögum á markað hið fyrsta og koma þeim í  eðlilegt rekstrar- og samkeppnisumhverfi. Það eru ekki ný sannandi að bankar eru ekki endilega heppilegasti eigandi fyrirtækja til lengri tíma litið.

Íslensk stjórnvöld ættu að vera einhuga um að beita sér fyrir því að sem flest fyrirtæki fari á markað við fyrsta hentugleika. Til að auka líkur á því þá hefur það áður gefið góða raun að beita skattaafslætti til að örva hlutabréfakaup. Þannig sér almenningur ekki eingöngu fram á mögulegan hagnað á kaupum á hlutabréfum til lengri tíma.

En ég er reyndar hæfilega bjartsýn með að núverandi stjórnvöld nýti sér það tækifæri til að örva hlutabréfakaup.

Að endingu: Lærum af fortíðinni, hættum að einblína í baksýnisspegilinn, horfum fram á  við og látum verkin tala.

Ég vil ljúka þessu með því að taka undir orð Vilhjálms: Leiðin úr kreppunni er fær."

Tengt efni:

Smelltu til að sækja

Nýtt rit SA: Rjúfum kyrrstöðuna. Leiðir til betri lífskjara (PDF)