Hefjum sókn í orkumálum
Komandi vetur verður landsmönnum mjög erfiður efnahagslega. Atvinnuleysi mun vaxa, einkaneysla dragast saman og þar með eftirspurn eftir vörum og þjónustu innlendra fyrirtækja. Fjárfestingar í atvinnulífinu og á byggingamarkaði verða í lágmarki, ríki og sveitarfélög munu draga úr útgjöldum og framkvæmdum. Peningar streyma inn á innlánsreikninga í bönkum en útlán eru lítil.
Hagspár fyrr á þessu ári gerðu ráð fyrir viðsnúningi á næsta ári sem var nánast einvörðungu tengdur áætlunum um fjárfestingar í orkugeiranum og framkvæmdum við álver í Helguvík og stækkun í Straumsvík. Nú hefur dregið úr þessum væntingum þar sem verkefnin hafa dregist á langinn eða tafist. Könnun Capacent í sumarbyrjun meðal stjórnenda fyrirtækja leiddi í ljós að svo til allir töldu aðstæður afleitar og margfalt fleiri töldu að þær myndu versna en batna á næstu sex mánuðum. Capacent birti einnig í síðasta mánuði alþjóðlega könnun þar sem fram kom að Íslendingar voru áberandi svartsýnni en aðrar þjóðir um þróun efnahagsmála á næstu mánuðum.
Sáttmáli um 15.000 ný störf
Stöðugleikasáttmálinn sem undirritaður var í lok júní
milli aðila vinnumarkaðarins, ríkisvaldsins og sveitarfélaganna var
gerður með það að markmiði að breyta þessari dökku framtíðarmynd
til betri vegar og sameinast um aðgerðir til þess. Í aðdraganda
samkomulagsins var sett fram sú sameiginlega sýn að 15.000 störf
sköpuðust fram til ársins 2013 og að sá árangur næðist ekki nema að
hagvöxtur yrði óvenju mikill, eða 4-4,5% á hverju ári. Til að svo
megi verða þarf að efla traust og trú á íslenskt efnahagslíf, örva
innlendar fjárfestingar í atvinnulífinu, stuðla að beinum erlendum
fjárfestingum og koma á eðlilegum lánaviðskiptum við
fjármálamarkaði erlendis. Að þessu þarf markvisst að vinna.
Ruðningsáhrif ekki til staðar
Land sem býr við efnahagslegan samdrátt og óskýra
stefnumörkun er ekki fýsilegt til fjárfestingar og samstarfs fyrir
erlenda fjárfesta. Því er mikið í húfi að ná samstöðu um leiðir til
þess að hagvöxtur hefjist á ný og þar liggja fjárfestingar í
orkugeiranum og tengdum iðju- og gagnaverum beinast við. Nú þarf
ekki að ræða neikvæð ruðningsáhrif á annað atvinnulíf eða að drepa
málum á dreif með því að eitthvað annað sé hægt að gera. Það liggja
fyrir fullhannaðar virkjanir og framkvæmdaáætlanir við álver sem
bíða eftir því að orkusamningar verði gerðir. Stöðugleikasáttmálinn
er alveg skýr í þessu efni því þar segir beinlínis að ríkisstjórnin
muni greiða götu þegar ákveðinna stórframkvæmda vegna álvera í
Helguvík og Straumsvík.
Áform um byggingu stórra gagnavera og kísilflöguverksmiðju til viðbótar við álver kalla á skjót viðbrögð. Ólíklegt er að þessi verkefni verði öll að veruleika á næstu árum nema að virkjað verði í neðri hluta Þjórsár. Þær virkjanir eru fullhannaðar og eru hagkvæmustu og líklega umhverfisvænstu virkjunarkostirnir sem völ er á. Þær leika því lykilhlutverk í því að hefja þá sókn í atvinnumálum sem stöðugleikasáttmálinn leggur grunn að. Ef öflugir og traustir orkukaupendur eru fyrir hendi sem tilbúnir eru til þess að binda sig í langan tíma þá þarf að svara því hvaðan orkan komi, ef ekki má virkja í neðri hluta Þjórsár. Því verður ríkisstjórnin að svara og lofaði því með stöðugleikasáttmálanum.
Annar vandi er fjármögnun framkvæmda í ljósi hás vaxtaálags sem íslenska ríkið og þar með Landsvirkjun býr við um þessar mundir. Þar verður að leita nýrra leiða og hugmyndir hafa verið settar fram um stofnun samlaga um virkjunarframkvæmdir, þar sem lífeyrissjóðir og aðrir fjárfestar, innlendir sem erlendir, sameinast um fjármögnun. Landsvirkjun myndi byggja og reka virkjanirnar og yfirtaka eignarhaldið að tilteknum árafjölda liðnum svipað og samningarnir um Spöl og Hvalfjarðargöng ganga út frá. Þetta er kostur sem ætti að láta reyna á við fyrirhugaðar virkjanir.
Úrelt og skaðleg viðhorf
Ástæða er til þess að hafa áhyggjur af því andrúmslofti
sem myndast hefur í kringum kaup kanadíska fyrirtækisins Magma á
hlut OR í HS Orku. Erlendir fjárfestar hafa hingað til fengið arð
af orkulindum Íslendinga í formi vaxta af lánum sem tekin hafa
verið til byggingar virkjana en þau viðhorf eru útbreidd að
óæskilegt sé að erlendir aðilar fái arð af áhættufé í
orkuvinnslunni. Nú þegar erlendir lánamarkaðir eru lokaðir
íslenskum orkufyrirtækjum og erlent áhættufé beinlínis forsenda
þess að ráðist sé í orkuframkvæmdir eru slík viðhorf bæði úrelt og
skaðleg fyrir það uppbyggingarstarf sem þarf að eiga sér stað.
Enginn hefur enda mótmælt því að erlendir aðilar bæði eigi og reki
olíuborpalla komi til þess að slíkar orkulindir finnist á íslensku
yfirráðasvæði.
Skýr stefnumótun nauðsynleg
Það skortir framtíðarsýn og skýra stefnumótun. Auknar
fjárfestingar í atvinnulífinu, með og án erlends fjármagns, og
meðfylgjandi hagvöxtur gerir öll önnur viðfangsefni miklu
auðveldari, styrkir fjárhag hins opinbera og dregur úr skaðlegum
landflótta sem við blasir ef ekki tekst fljótlega að snúa þróuninni
við. Valið er skýrt: Verður stuðlað að fjárfestingum í orkugeiranum
og nýrri atvinnusköpun, gjaldeyrisöflun og hagvexti. Eða verður
uppbygging orkuiðnaðarins tafin áfram með meðfylgjandi stöðnun og
samdrætti á næstunni.
Hannes G. Sigurðsson