Hátt í 80% töldu sig fá hæfilegt lán
Nær átta af hverjum tíu töldu að lánið, sem þeir fengu síðast hjá Íbúðalánasjóði, hafi verið hæfilegt að því er kemur fram í könnun sem Gallup gerði fyrir Íbúðalánasjóð og félagsmálaráðuneyti. Á þetta bendir Guðjón Rúnarsson, framkvæmdastjóri Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja (SBV), í samtali við Morgunblaðið. Guðjón segir þetta vera mjög athyglisverða niðurstöðu og eins hitt að fólk telji að meðaltali rétt að hámarkslán fari ekki yfir tíu milljónir króna 90% lánakerfi, miðgildið í könnuninni sé 9,8 milljónir.
Gera sér grein fyrir kostnaði
"Þetta virðist eindregið benda til þess að fólk sé sér meðvitað um
að lán er lán en ekki bara ókeypis himnasending. Fólki virðist
orðið ljóst, kannski út af umræðunni sem hefur farið fram, að þetta
er ekki bara einhliða mál, að þessi lán komi til með að kosta það
sjálft og að þetta muni hafa þau áhrif að verðið hækki o.s.frv."
Guðjón segir að niðurstöður úr spurningum á borð við það hvort menn
séu hlynntir eða andvígir 90% húsnæðisláni séu nokkuð sjálfgefnar,
það sé ekki ósvipað og að spyrja fólk hvort það sé hlynnt því að fá
kauphækkun. Þá bendir Guðjón á að hátt í einn af hverjum þremur eða
31,4% hafi svarað því til að hann vildi að bankar eða sparisjóðir
sæju um húsnæðislánin. "Það finnst okkur sérstaklega áhugavert
vegna þess að yfirleitt má gera ráð fyrir í svona niðurstöðum að
fólk sé íhaldssamt og hrætt við breytingar. Hlutfall þeirra sem
völdu banka eða sparisjóði hefði væntanlega verið mun hærra ef fram
hefði komið í spurningunni að gengið væri út frá því að vaxtakjörin
yrðu sambærileg við það sem þau eru í dag. Við teljum þetta því
sýna að fólk sé mjög opið fyrir þeim kosti að bankar og sparisjóðir
sjái um húsnæðislánin."